Flest ungmenni þekkja vel þá raun að þurfa að slökkva á farsímanum sínum þegar þeir fullorðnu telja tíma þeirra betur varið í annað en smáskilaboð. Næm eyru uppalenda og kennara hafa lagað sig að tækninni og sýnt fram á hver ræður á heimilinu eða í skólastofunni. Nú er hins vegar komin fram lausn sem gæti leyst þetta hvimleiða vandamál ungmenna fyrir fullt og allt.
Vísindamenn hafa að sögn vefsíðu bandaríska blaðsins The New York Times þróað hringitón í farsíma sem hinir fullorðnu geta ekki heyrt. Byggist tæknin á þeirri vel þekktu staðreynd að fullorðnir glata smátt og smátt hæfileikanum til að heyra hátíðnihljóð. Tæknin var þróuð af öryggisfyrirtæki í Wales og gekk þá undir nafninu moskítóflugan. Var markmiðið að draga úr þjófnaði fyrir utan verslanir með því að angra unglinga með hátíðnihljóðum. Nú hefur hins vegar vopnið snúist í höndunum á fullorðnum og unglingum í hag.