Sérfræðingar í heilbrigðismálum óttast að er fram í sækir verði ekki nægt framboð af gjafanýrum fyrir öll þau börn sem vegna offitu munu þurfa á nýrnaígræðslu að halda, og segja að stjórnmálamenn hafi engan áhuga á vaxandi offitu- og sykursýkifaraldri.
Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin segir að yfir einn milljarður fullorðinna jarðarbúa sé of þungur, og þar af þjáist 300 milljónir af sjúklegri offitu er auki hættuna á sykursýki, hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, heilablóðfalli og ýmsum gerðum krabbameins.
Sérfræðingarnir sem setið hafa þessa vikuna á ráðstefnu í Sydney í Ástralíu og rætt offituvandann í heiminum segja að offitufaraldurinn sé meiri ógn en alnæmi og fuglaflensa, og verði ekki tekið í taumana blasi við að heilbrigðiskerfi landa heims muni ekki ráða við vandann.
En þrátt fyrir að hættan sem fylgir offitu verði mönnum sífellt betur ljós hafi enn engin ríkisstjórn gripið til róttækra aðgerða gegn vandanum - eins og til dæmis að skattleggja matvæli sem innihalda mikla fitu og sykur.
„Það er ljóst að okkur hefur ekki tekist að sannfæra þá sem fara með völdin ... um að láta til skarar skríða,“ sagði dr Stephan Rossner, offitusérfræðingur við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð.
Aukinn fjöldi barna sem greinist með offitutengda sykursýki í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu veldur sérstökum áhyggjum, sagði Rossner. Sykursýki getur leitt til nýrnabilunar sem krefst skiljunar eða ígræðslu.
„Eftir einn eða tvo áratugi verður mikið af ungu fólki í nýrnaskilju. Það verður ekki nóg af líffærum handa öllum. Þetta verður dýrt, og það geta stjórnmálamenn skilið,“ sagði Rossner. „Það þarf ekki marga sjúklinga til viðbótar í nýrnaskiljun til að sliga hvaða heilbrigðiskerfi sem er í heiminum.“