Segja það misskilning að Golfstraumurinn hafi stöðvast í tíu daga

Norskir vísindamenn hafna þeirri kenningu breskra kollega sinna að Golfstraumurinn hafi stöðvast af ókunnum ástæðum í tíu daga árið 2004. Þá segja Norðmennirnir að það fáist ekki heldur staðist að rannsóknir bendi til að hætta sé á að straumurinn veikist eða stöðvist alveg af völdum loftslagsbreytinga.

Þetta kemur fram á norska vísindavefnum forskning.no.

„Við fáum ekki séð að Golfstraumurinn hafi stöðvast,“ er haft eftir Tor Eldevik, sem starfar við Nansen-stofnunina norsku. „Það eru ýmsar ástæður til að hafa almennt áhyggjur af loftslaginu, en þetta er ekki ein þeirra.“

Mælingar sýni þvert á móti að Golfstraumurinn sé mjög stöðugur. Vísindamenn telja að með athugnum á tölvulíkönum af úthöfunum megi ráða að litlar líkur séu á að straumurinn stöðvist, jafnvel þótt mikið af hafís og Grænlandsjökli bráðni.

Til dæmis sýni líkönin að ef ferskvatnsstraumur út í Atlantshafið fjórfaldist af völdum bráðnunar kunni Golfstraumurinn að veikjast um 30% á hálfri öld. En eftir það fari aðrir þættir að hafa áhrif og straumurinn nái sér að mestu á strik.

Fyrir nokkrum dögum bárust fregnir af kenningum sem breskir vísindamenn lögðu fram á ráðstefnu í Birmingham þess efnis að Golfstraumurinn hefði stöðvast í tíu daga af óútskýrðum ástæðum.

En norskir vísindamenn segja að kenningin sem lögð var fram í Birmingham hafi ekki verið byggð á mælingum á sjálfum Golfstraumnum, heldur öðrum þætti stærra kerfis sem hann sé hluti af, það er að segja, köldum straumi sem liggi suður Atlantshafið á meira dýpi. Stundum liggi kaldi straumurinn mjög djúpt, stundum fari hann ofar.

Golfstraumurinn er aftur á móti heitur straumur sem liggur frá Mexíkóflóa, um Flórídasund og norður eftir Atlantshafi í efra borði þess. Hann er hluti af stærra straumakerfi sem tengir saman öll úthöfin.

Á forskning.no segir ennfremur að þessir bresku vísindamenn hafi valdið úlfaþyt í fyrra er þeir birtu niðurstöður í Nature þess efnis að straumakerfið sem flytur hlýjan sjó norður og sendi kaldan til baka suður hafi veikst um 30% síðan 1957. Hafi tímaritið sent út fréttatilkynningar af þessu tilefni.

Norsku vísindamennirnir segja aftur á móti að þessar niðurstöður Bretanna hafi verið byggðar á takmörkuðum mælingum og því hafi óvissuþættir verið mjög margir. Túlkuninni á niðurstöðunum hafi svo ennfremur fylgt margir óvissuþættir.

Bresku vísindamennirnir, sem starfa við National Oceanography-miðstöðina í Southampton, hafi síðan gert frekari mælingar og hafi í Birmingham kynnt niðurstöður þeirra, þar sem m.a. hafi komið fram að í rannsókninni sem birtist í Nature hafi þeir ofmetið veikinguna, og nýju mælingarnar bendi til að hún geti orðið um tíu prósent.

Þeir greindu þá ennfremur frá því að ekki hefði mælst neinn straumur í tíu daga, og sagðist stjórnandi rannsóknarinnar ekki hafa neina skýringu á því, en þetta væri sannarlega merkilegt.

Anne Britt Sandö, sem starfar við Nansen-stofnunina í Bergen, segir að ekki séu nauðsynlega nein tengsl á milli þess á hvaða dýpi kaldi straumurinn liggi suður og hvernig hlýja straumnum norður sé háttað. Ekki sé víst að mælitæki bresku vísindamannanna hafi alltaf numið kalda strauminn, því breytilegt er á hvaða dýpi hann sé.

Eldevik segist ennfremur telja að það sé ekki raunhæfur möguleiki að Golfstraumurinn stöðvist. Ekki hafi komið fram neinar vísbendingar um að straumurinn sé að breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka