Offita er alvarlegt heilbrigðisvandamál í Evrópu

Offita er að verða ein helsta heilbrigðisógnin í Evrópu
Offita er að verða ein helsta heilbrigðisógnin í Evrópu AP

Heilbrigðisráðherrar og yfirmenn í heilbrigðisráðuneytum 48 Evrópulanda hittust á fundi í Istanbúl í Tyrklandi í dag til þess að leggja línurnar í baráttunni gegn offitu sem er ein alvarlegasta heilbrigðisógnin í álfunni. Fundurinn, sem var skipulagður af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, er sá fyrsti sem offituvandinn er aðalumræðuefnið í Evrópu. Talið er að helmingur fullorðinna og eitt af hverjum fimm börnum séu of þung og þriðjungur þeirra þjáist af offitu, samkvæmt tölum WHO.

Yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu, Markos Kyprianou, segir að að ekki sé of seint að grípa til aðgerða en það verði að gerast strax.

Samkvæmt WHO er offita orðin það algeng í Evrópu að hún telst faraldur en fjöldi offitusjúklinga hefur þrefaldast á tveimur áratugum í álfunni. Ef ekki verði gripið til aðgerða megi gera ráð fyrir því að árið 2010 verði 150 milljónir fullorðinna offitusjúklinga, eða 20%, í Evrópu en um 15 milljónir barna eða 10% barna sem þjást af offitu.

Samkvæmt tölum sem kynntar voru á ráðstefunni í Istanbúl er offita algengust í Tírana höfuðborg Albaníu. Alls eru 79% karlmanna og 78% kvenna yfir kjörþyngd í borginni. Í öðru sæti er Bosnia Herzegovina, þar sem 65,1% karla og 61,4% kvenna er of þung. Í Skotlandi eru 65,7% karla og 59,7% kvenna of þung.

Samkvæmt WHO er offita minnst í Noregi af löndum Evrópu en 37,8% karla og 25,5% kvenna eru yfir kjörþyngd þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert