Það má með sanni segja að tölvan sé þarfasti þjónn nútímamannsins. Líkt og með annað sem tengist mannskepnunni getur ýmislegt komið upp í þeim samskiptum. Tölvur geta skemmst og gögn geta tapast á ótrúlegan máta. Norska fyrirtækið Kroll Ontrack Data Recovery sérhæfir sig í því að bjarga tölvugögnum sem virðast hafa glatast um aldur og ævi. Það hefur nú tekið saman lista yfir 10 ótrúlegustu tölvusögur ársins 2006.
Við byrjum á 10 sæti.
10. Missti tölvuna úr þyrlu.
Maður sem starfar hjá alþjóðlegu símafyrirtæki varð fyrir því óláni að missa fartölvuna sína úr þyrlu er hann var við störf í Mónakó.
9. Gögnin hurfu eftir sjampóþvott.
Einn farþegi, sem flaug frá London til Varsjár í Póllandi, hafði pakkað fartölvunni sinni í sömu tösku og hann setti hreinlætisvörurnar. Það vildi ekki betur til en svo að sjampóið lak yfir allt sem var í töskunni og eyðilagði harða diskinn í tölvunni.
8. Átakanlegt fyrir gamanleikarann.
Breskur gamanleikari varð fyrir því óláni að missa tölvuna sína í gólfið með þeim afleiðingum að harði diskurinn skemmdist. Það kom sér afar illa þar sem hann tapaði jafnframt 5.000 ljósmyndum, 6.000 lögum og helmingnum af bók sem hann var að skrifa. Hann leitaði til sérfræðinganna sem náðu að endurheimta gögnin fyrir hann.
7. Björguðu vísindarannsóknum.
Breskur háskóli sem stundar miklar vísindarannsóknir varð fyrir því að tapa gríðarlegu miklu magni af gögnum þegar eldur kom upp í skólanum.Reykur og vatn úr slökkvitækjum skemmdi mikið af tölvubúnaði. Það náðist þó að bjarga 30 tölvum, eða um einu terabæti af gögnum.
6. Banani á harða disknum.
Þá datt einum manni í hug að leggja gamlan banana ofan á utanáliggjandi harðan disk sem hann átti. Bananinn fór brátt að mygla og lak bananagumsið inn á diskinn sjálfan og olli skemmdum á tækinu. Skemmst er þó frá því að segja að þeim hjá Kroll Ontrack tókst að bjarga harða disknum, en það sama er ekki hægt að segja um bananann.
5. Harði diskurinn sem hraðahindrun.
Á hverju ári dúkkar upp fólk sem leggur tölvurnar eða harða diskinn í veg fyrir ökutæki. Það tókst þó að bjarga gögnum úr tölvu sem flugvallarökutæki ók yfir. Þá björguðust nokkrir utanáliggjandi harðir diskar sem voru í bakpoka sem vörubifreið hafði ekið yfir.
4. Ítarlegt forsnið.
Einn maður lét sér ekki nægja að forsníða harða diskinn sinn einu sinni eða tvisvar, heldur gerði hann það 10 sinnum áður en hann gerði sér grein fyrir því að á tölvunni væri að finna mikilvægar upplýsingar sem hann hefði átt að gera afrit af.
3. Fríinu bjargað.
Maður einn kom heim úr draumaferðalaginu frá Barbados en var svo óheppinn að hann gat ekki fundið myndirnar sem hann tók neðansjávar er hann kafaði til þess að skoða kórala sérstæða fiska. Hann hafði tekið myndirnar með nýju vatnsheldu myndavélinni sinni. Það kom hinsvegar í ljós að myndavélin var ekki jafn vatnsheld og haldið var fram í auglýsingunni. Þrátt fyrir það tókst að bjarga myndunum.
2. Úr öskunni í eldinn.
Háskólaprófessor var afar pirraður á stöðugu pípi sem kom frá harða diskinum úr nýju tölvunni hans. Hann dó þó ekki ráðalaus og ákvað að opna tölvuna sjálfur og spreyja hana með smurefni til þess að losna við hljóðið. Þetta reyndist vera hin besta aðferð til þess að losna við óhljóðið en þetta gerði jafnframt það að verkum að hann gat ekki lengur kveikt á tölvunni.
1. Illa þefjandi verkefni.
Fyrir einn viðskiptavin var gagnatapið ekki alvarlegt en ástandið varð þeim mun verra þegar hann ákvað að vefja harða disknum sínum í skítuga sokka til að verja hann gegn hnjaski, en hann sendi svo diskinn til Kroll Ontrack. Sokkarnir reyndust ekki vera sú vörn sem maðurinn hélt að þeir yrðu og því skemmdist diskurinn við flutningana. Verkefni þeirra hjá Kroll Ontrack reyndist því vera erfiðara en upphaflega stóð til. Umræddur viðskiptavinur lofaði því að framvegis muni hann nota bóluplast.