Niðurstöður rannsókna franskra vísindamanna benda til þess að kaffidrykkja getu hægt á elliglöpum meðal kvenna. Rannsóknir sem birtar hafa verið í fagtímaritinu Neurology og gerðar voru á konum 65 ára og eldri sýndu að konur sem drukku þrjá kaffibolla eða meira þjáðust síður af elliglöpum en þær sem drukku einn bolla eða minna.
Í rannsókninni koma ennfremur fram vísbendingar um að kaffidrykkjan geti jafnvel komið í veg fyrir elliglöp, kaffi er þekkt fyrir að hafa örvandi áhrif, en segja vísindamennirnir að svo virðist sem að það eitt skýri ekki áhrifin á heilastarfsemina.
Í niðurstöðunum er tekið tillit til atriða á borð við menntun, blóðþrýsting og aðra sjúkdóma. Vísindamönnunum þykja niðurstöðurnar einkar áhugaverðar, ekki síst vegna þess að kaffidrykkja er nú þegar útbreidd og hliðarverkanir færri og síður alvarlegar en önnur lyf sem notuð hafa verið við heilahrörnun.
Karen Richie, sem stjórnaði rannsókninni hjá þjóðarstofnun Frakka um rannsóknir á læknavísindum, segir að ekki megi þó draga alyktanir beint af niðurstöðunum, rannsaka þurfi frekar áhrif koffíns á heilann áður en hægt sé að mæla beinlínis með kaffidrykkju til að koma í veg fyrir elliglöp.