Örnólfur Thorlacius fær viðurkenningu fyrir vísindastörf

Örnólfur Thorlacius
Örnólfur Thorlacius

Örnólfur Thorlacius hlaut nú síðdegis verðlaun Rannís fyrir framlag sitt til vísindamiðlunar. Segir í niðurstöðu dómnefndar að Örnólfur hefur um langt árabil unnið ötullega að því að miðla ótal sviðum náttúruvísinda til almennings með mjög fjölbreyttu efni fyrir sjónvarp, útvarp, dagblöð og tímarit auk útgáfu fjölda bóka.

Örnólfur kenndi um árabil náttúruvísindi við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hann átti mikinn þátt í að byggja upp fyrstu náttúrufræðibrautina við framhaldsskóla hérlendis. Hann hefur skrifað fjölda kennslubóka og verið afkastamikill við nýyrðasmíð. Hann var fyrsti umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins „Nýjasta tækni og vísindi". Örnólfur hefur lagt mikla áherslu á að fræða almenning og þá sérstaklega yngsta fólkið með skrifum sínum, einkum í tímaritinu Náttúrufræðingnum.

Hann hefur lagt sig eftir því að efla áhuga barna og unglinga á heimi vísindanna og meðal bóka sem hann hefur gefið út eru Bókin um vatnið, Bókin um hjólið, Bókin um hraðann, Tilraunabók barnanna og Galdrabók barnanna sem hafa notið vinsælda hjá börnum, að því er segir í niðurstöðu dómnefndar.

Við val á verðlaunahafa leitaði Rannís eftir tilnefningum og fékk ábendingar um 14 aðila. Þessar tilnefningar voru lagðar fyrir dómnefnd sem í sátu Elísabet M. Andrésdóttir hjá alþjóðasviði Rannís, Eiríkur Smári Sigurðarson hjá vísindaskrifstofu menntamálaráðuneytisins, Viðar Hreinsson framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar og Ari Ólafsson verðlaunahafi frá árinu 2006.

Við mat á tilnefningum til verðlaunanna var tekið tillit til brautryðjendastarfs, frumleika og árangurs við vísindamiðlun.
Val dómnefndarinnar var ekki auðvelt þar sem velja þurfti á milli þó nokkurra aðila sem uppfylltu vel öll viðmiðin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka