Stjarna ein hefur skinið skært að undanförnu og verið áberandi í suðri skömmu eftir sólsetur. Þessi skæra stjarna er reikistjarnan Venus. Í dag, 14. janúar, kemst Venus lengst frá sólinni frá jörðu séð, sem þýðir að hún nær hæstu stöðu á himninum. Eftir það fer hún smám saman lækkandi.
Þeir sem eiga sjónauka geta nýtt tækifærið og beint honum að Venusi. Þegar það er gert sést að aðeins tæplega helmingur Venusar er upplýstur. Ástæðan er að Venus er nær sólu en jörðin og því sjást kvartilaskipti á Venusi. Þessa dagana er kvartilið um 50%. Þrátt fyrir þetta er Venus svo björt að hægt er að sjá hana að degi til, ef maður veit hvert skal horfa, að sögn Sævars Helga Bragasonar.
Venus er önnur reikistjarnan frá sólu og sjötta stærsta reikistjarna sólkerfisins, örlítið minni en jörðin. Við fyrstu sýn virðist sem Venus sé tvíburasystir jarðarinnar. Þær hafa næstum sama massa, þvermál, eðlismassa og aðdráttarkraft. Á báðum reikistjörnum eru fáir gígar sem bendir til þess að yfirborðin séu ung. Þó er eitt veigamikið atriði sem skilur á milli: Venus er eyðileg en jörðin er eini staðurinn þar sem vitað er um líf með vissu.
Venus er nefnd eftir rómverskri gyðju ástar og fegurðar, enda er hún ægifögur á himninum. Venus var upphaflega akuryrkjugyðja áður en hún sameinaðist hinni grísku Afródítu. Hún var dóttir Júpíters og meðal ástmanna hennar voru Mars og Vúlkan. Sonur ástargyðjunnar var vitaskuld Amor sem fæddist í gulleggi. Mikilvægi gyðjunnar jókst með áhrifum nokkurra rómverskra stjórnmálaleiðtoga. Rómverski einræðisherrann Lúkíus Kornelíus Súlla gerði hana að verndara sínum og bæði Júlíus Sesar og Ágústus keisari röktu ættir sínar til hennar.
Upplýsingar fengnar af vefnum stjornuskodun.is þar sem jafnframt má finna fleiri og ýtarlegri upplýsingar.