Skráarskiptanetsíðan Pirate Bay dregin fyrir dóm

Einkennismynd he Pirate Bay.
Einkennismynd he Pirate Bay.

Í Stokkhólmi hófust í dag réttarhöld sem talið er víst að munu vekja mikla athygli. Í réttarhöldum þessum takast á annars vegar fjölþjóðlegt lögmannastóð hljómplötuiðnaðarins, kvikmyndaiðnaðarins og hugbúnaðariðnaðarins og hins vegar fjórir sænskir tölvunördar.

Réttarhöldin snúast um lögmæti netsíðunnar The Pirate Bay sem veitir aðgang að svonefndum „torrents“ eða skráarskiptahugbúnaði sem gerir notendum kleift að deila með sér stórum skrám með skjótum hætti.

Pirate Bay er sökuð um gífurlegan og umfangsmikinn stuld. „Persónurnar bak við Pirate Bay hafa ekki einungis gert kleift að fótum troða höfundarétt á heimsvísu. Þeir hafa gert það í hagnaðarskyni. Sönnunargögnin munu leiða það í ljós,“ skrifar  lögmaðurinn Henrik Pónten, sem fer með málið fyrir kvikmyndafélögin, inn á heimasíðuhljómplötuiðnaðarins.

Það er hagnaðarvonin og meint brot gegn höfundarétti sem verða kjarni réttarhaldanna. The Pirate Bay hafnar því að græða peninga á iðju sinni á heimsíðu sinni - þvert á móti tapi hún peningum, að því er fram kemur í frétt ídanska fjármálablaðinu Börsen.

Sakborningar neita ekki að skráskiptin geri það mögulegt að brjóta lögin en halda því fram að með því að veita þennan aðgang sé ekki verið að brjóta sænsk lög.

Ólíkt fyrri sjóræningjaþjónustum eins og KaZaa og Napster er skráarskiptatæknin dreifð, þ.e. umferðin liggur ekki um miðlæga netþjóna heldur frá tölvu til tölvu.

Oft á tíðum er því til dæmis hægt með venjulegri nettengingu að sækja sér Óskarstilnefnda kvikmynd á innan við hálfri klukkustund. Tæknina má auðvitað einnig nota til að deila eða skiptast á löglegu efni.

Þetta hefur haft í för með sér að tæknilega hefur það reynst heiglum hent að ná í sönnunargögn gegn einstökum notendum. Þess vegna er lögunum nú beitt gegn bakhjörlunum, sem hafa hins vegar til þess ekki látið hræða sig.

„Raunveruleika-sápa“

Þvert á móti hefur The Pirate Bay orð á sér fyrir að gera stólpagrín af hverskyns dómstólahótunum. Í síðunni má sjá dæmi um bréf sem henni hefur borist frá lögmönnum hvaðanæva úr heiminum og háðuleg svör hópsins sem stendur á bak við síðuna. Réttarhöldunum nú er lýst sem „raunveruleika-sápu“.

Áætlað hefur verið að að skráarskiptin séu um 35% af heildar netsambandsumferðinni. Sænsku sjóræningjarnir segja töluna þó mun hærri.

„Við vitum að rúm 80% af allri umferð á netinu er skráarskipta-tengd. Um það bil helmingur af þessum 80% er okkar umferð. Það þýðir að um 40% allrar netumferðar fer um The Pirate Bay,“ skrifar einn forráðamannanna á heimasíðuna.

Stefnendur í réttarhöldunum hafa valið þá leið að einbeita sér að 30 ákæruliðum varðandi brot á höfundarétti og krefjast 120 milljóna sænskra króna, jafnvirði um 1,6 milljarði ísl. króna, í skaðabætur. Gert er ráð fyrir að réttarhöldunum ljúki 4. mars nk. Sigurreifir sjóræningjarnir hafa hins vegar boðað til sigurhátíðar á föstudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert