Ákæruvaldið í málaferlum helstu höfundaréttarsamtaka heims gegn skráarskiptavefnum The Pirate Bay í Stokkhólmi hefur orðið að falla frá alvarlegustu ákæruatriðunum þegar á öðrum degi réttarhaldanna.
Eftir að hafa mistekist að sýna fram á í réttinum að ólöglegum skrám hefði verið dreift fyrir tilstilli Pirate Bay vefjarins - þrátt fyrir að nafn The Pirate Bay birtist neðst í skránum - varð ákæruvaldið sem fer með málið fyrir hönd margra helstu hljómplötu-, kvikmynda- og hugbúnaðarfyrirtækja að leggja til hliðar um helming ákæruatriðanna.
Einn fjórmenninganna sem ákærðir eru, Fredrik Neij sagði í réttinum að saksóknarinn, Håkan Roswall, hefði misskilið tæknina og að sönnunargögn hans tengdust The Pirate Bay á engan hátt.
Ákæruvaldið varð því að falla frá öllum ákæruatriðum sem lutu að því að hinir ákærðu hefðu aðstoðað við brot á höfundarrétti en halda til streitu léttvægari ákæruatriðum um að þeir hefðu aðstoðað við að gera höfundaréttarverndað efni aðgengilegt.
Per Samuelson, verjandinn í málinu, lýsti því yfir að yfirsjón saksóknara væri með ólíkindum - það væri fágætt að hafa fengið yfir helming ákæruatriða út af borðinu eftir hálfan annan dag af réttarhaldinu. Greinilegt væri að ákæruvaldið hefði orðið að fallast á rök sín um að það væri í sjálfu sér ekki ólöglegt að gera þjónustu aðgengilega þótt hún gerði kleift að lög væru brotin.
Ákæruvaldið reyndi að gera lítið úr þessari óvæntu kúvendingu í réttarhöldunum. Þvert móti yrði sú ákvörðun að falla frá þeim atriðum sem varða afritun höfundaréttarverndað efnis til að einfalda megin ákæruatriðið, þ.e. að gera höfundarréttarvarið efni aðgengilegt.
The Pirate Bay hýsir ekki efnið sjálft heldur skráir hjá sér efnisskrár í vörslu notenda gegnum svonefnda jafningavinnslu (e. peer-to-peer) skráarskiptatólsins BitTorrent. Notendur leita á vefnum að þeim skrám sem þeir hafa hug á og hala þeim síðan niður af tölvum annarra notenda.
Vefurinn sem er með bækistöðvar í Svíþjóð hefur verið mikill þyrnir í augum stóru fjölmiðlafyrirtækjanna allt frá því að honum var hleypt af stokkunum 2003 og hefur þegar staðið af sér eina atlögu fyrir dómstólum. Forráðamenn hans hafa verið harðir gagnrýnendur þess fyrirkomulags sem ríkir í iðnaðinum og segja það úrelt.
„Málið snýst ekki um að verja tæknina,“ sagði einn þeirra á blaðamannafundi fyrir réttarhöldin. „Þetta snýst meira um að verja hugmyndina á bak við tæknina og það er kannski mergurinn málsins - hin pólitíska hlið málsins að tæknin fái að vera frjáls en sé ekki stjórnað af öflum sem líkar ekki tæknin.“