Peter Sunde, einn forsvarsmanna sænska netfyrirtækisins The Pirate Bay, sagði á blaðamannafundi að fyrstu viðbrögð þeirra félaga hefðu verið hlátur. Sakfelling væri svo undarleg að ekki væri annað hægt en að hlæja. Peter sagði ekki koma til greina að greiða sektina, það geta þeir ekki og munu ekki gera.
Hægt var að spyrja Peter spurninga í gegnum Twitter samskiptasíðuna og svaraði hann í beinni útsendingu sem sýnd var á vefnum, þ.e. thepiratebay.org.
Fjórmenningarnir, þeir Fredrik Neij, Peter Sunde, Gottfrid Svartholm Warg og Carl Lundström, heyrðu af niðurstöðu dómsins í gær, og frá fjölmiðlamanni. Peter sagði þá hafa verið undrandi á vinnubrögðum dómstólsins. Lögmaður fjórmenningana hafði þá ekki fengið að vita niðurstöðuna.
Peter dró ekkert úr alvarleika málsins. Sagði það grafalvarlegt að fá dóm, sérstaklega svo þungan. Hins vegar væri það staðreynd að dómar geti fallið á hvorn veginn sem er í héraðsdómum Svíþjóðar og hann er þess fullviss að dómnum verði snúið fyrir Hæstarétti. Hann hvatti einnig fólk til að lögsækja Google á sömu forsendum og The Pirate Bay.
Hann sagðist þó ekki hafa lesið allan dóminn, sem er 107 blaðsíður.