Tölvur eru á 92% íslenskra heimila og 90% eru með nettengingu. Að sögn Hagstofunnar er helmingur íslenskra heimila er með tvö sjónvarpstæki eða fleiri og 48% eru með flatskjá. Nær öll nettengd heimili eru með háhraðatengingu, eða 97%.
Hagstofan segir, að tölvu- og netnotkun sé mjög almenn en 93% landsmanna á aldrinum 16-74 ára höfðu notað tölvu og netið síðustu þrjá mánuði fyrir rannsóknina. 78% lásu dagblöð eða tímarit á netinu og 65% hlustuðu á vefútvarp eða horfðu á vefsjónvarp. Ríflega þrír af hverjum fjórum netnotendum sinntu viðskiptum í heimabanka, 29% keyptu vörur eða þjónustu gegnum netið og 14% seldu vörur eða þjónustu.Þrír af hverjum fjórum netnotendum nota netið til að leita upplýsinga á heimasíðum opinberra aðila og mikill meirihluti þeirra segir þessa upplýsingaleit ganga vel.
Hlutfall þeirra sem versla á netinu lækkar milli ára í fyrsta skipti síðan mælingar hófust árið 2002. Þeir sem versla á netinu kaupa síður farmiða, gistingu og aðra ferðatengda þjónustu en fyrri ár. 57% keyptu aðgöngumiða á viðburði á netinu. Tæpur helmingur keypti sér fjarskiptaþjónustu á netinu, 46% keyptu bækur, tímarit eða fjarkennsluefni og 34% keyptu hugbúnað fyrir tölvur eða tölvuleiki.