Fann fingur og tönn Galileos

Galileo Galilei.
Galileo Galilei.

Tveir fingur og tönn, sem fjarlægð voru úr líki ítalska stjarnfræðingsins Galileo Galilei, eru komin í leitirnar en talið var að þau væru glötuð. Beinin og tönnin reyndust vera í trékistli, sem safnari nokkur keypti nýlega á uppboði.  Verða þau sýnd opinberlega næsta vor.

Að sögn Paolo Galluzzi, safnstjóra vísindasafnsins í Flórens, voru þrír fingur, hryggjarliður og tönn fjarlægð úr líki Galileos árið 1737, 95 árum eftir dauða hans, þegar verið var að flytja líkið úr líkhúsi yfir í sérstaka viðhafnarkistu í Santa Croce dómkirkjunni í Flórens.

Einn fingurinn fannst skömmu síðar og er nú í vísindasafninu og hryggjarliðurinn er í háskólanum í Padua þar sem Galileo kenndi lengi.  En tönnin og hinir fingurnir tveir, sem geymd voru í öskju, komust í eigu ítalsks markgreifa og síðan afkomenda hans, kynslóð eftir kynslóð.

Galluzzi segir, að eftir því sem aldirnar liðu hafi vitneskjan um hvað var í öskjunni og fjölskyldan seldi hana. Árið 1905 þótti sérfræðingum ljóst, að beinin væru töpuð.

Sá sem keypti öskjuna nýlega á uppboði hafði samband cið Galluzzi og aðra sérfræðinga í Flórens sem rannsökuðu skjöl frá fjölskyldu markgreifans og önnur skjöl og komust að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða líkamsleifar Galileos.

Beinin voru í 18. aldar vasa sem var í trékistli með mynd af Galileo. 

Galileo, sem lést árið 1642 var bannfærður af páfagarði fyrir að halda því fram að jörðin snérist um sólina. Kenningar kirkjunnar á þessum tíma mæltu fyrir um að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Jóhannes Páll páfi II endurreisti Galileo á tíunda áratug síðustu aldar og sagði að kirkjan hefði haft rangt fyrir sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert