Rússar hreinsa geimrusl

Töluvert af geimrusli er að finna á braut um jörðina.
Töluvert af geimrusli er að finna á braut um jörðina. AP

Rússar hafa tilkynnt að þeir ætli að verja um tveimur milljörðum dollara í að hreinsa rusl sem svífur á braut um jörðu. Búist er við að tíu ár taki að byggja geimfar til verksins og önnur tíu ár að hreinsa allt geimruslið á braut um jörðina.

Rússneska geimferðastofnunin Energia hyggst verja 1,9 milljörðum dollara, jafnvirði rúmlega 220 milljarða íslenskra króna, í að byggja og skjóta á loft geimfari sem getur hreinsað upp brot úr gervitunglum og annað rusl sem svífur á braut um jörðina.

Farið mun taka tíu ár í byggingu og gætu tilraunir á notkun þess hafist á milli 2020 og 2023. Eftir það mun það taka önnur tíu ár að hreinsa mestan hluta ruslsins en talið er að afgangur af um 600 gervitunglum sem ekki eru lengur í notkun fljóti þar um.

Farið verður knúið áfram með kjarnorku og er endingartími þess talin um fimmtán ár. Þá vinnur stofnunin einnig að geimvarnarkerfi sem geti grandað hættulegum hlutum sem stefna að jörðinni eins og halastjörnum og loftsteinum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka