Byltingarkennd svissnesk flugvél sem knúin er með sólarorku fór í fyrsta millilandaflug sitt í dag. Gekk það að óskum og átti vélin sem gefur engan útblástur frá sér að taka rúma tólf tíma í að ferðast 480 kílómetra frá Sviss til Brussel yfir bæði Frakkland og Lúxemborg.
Sveif einsætisvélin sem nefnist Solar Impulse á um 50 kílómetra hraða á klukkustund í 3.600 metra hæð 11.880 fet). Hefur vélin sama vænghaf og stórar flugvélar en vegur hins vegar aðeins á við fólksbíl. Komst hún á spjöld sögunnar í júlí fyrra þegar hún var fyrsta mannaða vélin til þess að fljúga í sólahring og í gegnum nóttina á sólarorku.
Þá á vélin bæði flugþols og hæðar met fyrir mannaða sólarknúna flugvél. Hélst hún á lofti í 26 klukkustundir, 10 mínútur og 19 sekúndur yfir Sviss og flaug hún í 9.235 metra hæð (30.298 fet).
Síðan þá hefur vélin flogið nokkrar ferðir, þar á meðal á milli Genf og Zurich en ferðin til Brussel í gegnum mikla flugumferð þykir ný mælistika á getu vélarinnar.
Vélin HB-SIA notar 12 þúsund sólasellur á 64 metra löngum vængjunum til þess að hlaða rafhlöðu sem sér 10 hestafla rafmagnsvél fyrir krafti til að knýja fjóra hreyfla.