Geimferðastofnun Íran tókst að setja gervitungl á sporbraut um jörðu í gær. Gervitunglið sem nefnist Rassad 1, er nú í um 260 kílómetra hæð yfir jörðu og ferðast það fimmtán sinnum umhverfis hana á sólarhring. Að sögn yfirvalda þar í landi er helsti tilgangur gervitunglsins að taka myndir af jörðinni. Gervitunglið var smíðað í samvinnu við Malek Ashtar háskólann í Teheran.
Undirbúningur er nú þegar hafinn að öðru geimskoti sem áætlað er nú í sumar. Vonir standa til að geimskotið geti farið fram í mánuði Mordad, sem er fimmti mánuður íranska dagatalsins og nær yfir tímabilið 23. júlí til 22. ágúst.
„Geimflaugin, Kavoshgar 5, mun vera útbúin 285 kílógramma hylki sem flytja mun apa. Stefnt er að því að geimflaugin nái um 120 kílómetra hæð,“ segir Hamid Fazeli, yfirmaður Geimferðastofnunar Írans.
Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, hafði nýverið státað sig af geimhylkinu sem flytja mun apann sem og fjórum nýjum gervitunglum sem öll voru smíðuð voru þar í landi. Vonir standa til að þeim verði skotið á loft fyrir marsmánuð árið 2012.
Írönum hefur áður tekist að senda lifandi dýr upp í geim. Gerðist slíkt t.a.m. árið 2010 þegar þeir sendu rottu, skjaldbökur og orma með geimflauginni Kavoshgar 3. Fazeli segir að komandi geimskot sé fyrsti liður þeirra í að senda mann upp í geim. Vert er að geta að stefnt er að því fyrir árslok 2020.
Ráðamenn Vesturlanda óttast að hin metnaðarfulla geimáætlun Írans sé liður í þróun öflugra flauga sem kynnu að bera kjarnaodda. Þessu hafa yfirvöld Írans staðfastlega neitað.