Sjúklingar sem höfðu haft áunna sykursýki (týpu 2) árum saman losnuðu við einkenni sjúkdómsins, að minnsta kosti tímabundið, með því að halda sig við strangt hitaeiningasnautt mataræði í tvo mánuði.
Þetta kom fram í rannsókn sem kynnt var í dag. Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í vefútgáfu The Guardian. Það voru vísindamenn við háskólann í Newcastle sem unnu rannsóknina. Niðurstöður hennar kollvarpa fyrra áliti um sjúkdóminn sem talið var að fylgdi sjúklingnum til æviloka.
Rannsóknin sýndi að sjúklingar gátu náð sér af sykursýki 2 með mjög ströngu mataræði. Ellefu einstaklingar sem greindir höfðu verið með sykursýki 2 tóku þátt í rannsókninni en hún var kostuð af samtökum sykursjúkra, Diabetes UK.
Þau sem tóku þátt í rannsókninni skáru niður fæðunám sitt í einungis 600 kílókaloríur á dag í samfleytt tvo mánuði. Þremur mánuðum síðar voru sjö af þessum ellefu enn án einkenna sykursýki 2.
Roy Taylor, prófessor við háskólann í Newcastle, sagði það stórkostlegt að fólk sem þjáðst hafði af sjúkdómnum árum saman skyldi vera einkennalaust eftir átta vikna strangt mataræði. Hann taldi að þetta myndi breyta viðhorfum til sykursýki 2 og leiðbeiningum til þerra sem greindust með sjúkdóminn í framtíðinni.