Heilbrigðismálastofnun Bandaríkjanna (NIH) hefur veitt Íslenskri erfðagreiningu styrk til framhaldsrannsókna á tengslum erfða og nikótínfíknar. Styrkurinn nemur einni milljón Bandaríkjadala á ári í fimm ár og nemur heildarupphæðin því tæpum 580 milljónum króna.
Rannsóknin er unnin í samvinnu við SÁÁ en markmið verkefnisins að finna ný gen og erfðabreytileika sem tengjast nikótínfíkn með því að raðgreina allt erfðamengi a.m.k. 100 Íslendinga sem greinst hafa með sterka fíkn í nikótín samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Þessar nýju upplýsingar verða svo notaðar til að greina og varpa nýju ljósi á eldri gögn sem ÍE býr yfir um reykingavenjur Íslendinga, auk þess sem fjölskyldutengsl þeirra sem teljast hafa erfðabreytileika sem tengjast nikótínfíkn verða skoðuð í kjölfarið. Rannsóknin byggist því að verulegu leyti á þeirri sérstöðu sem fyrri rannsóknir og ættfræðiupplýsingar Íslenskrar erfðagreiningar skapa, segir í tilkynningu.
Íslensk erfðagreining býr yfir upplýsingum um reykingavenjur um 60.000 einstaklinga, þar af eru um 5.000 með skilgreinda nikótínfíkn og aðrir 5.000 sem reykja lítið og teljast ekki fíknir í nikótín.
Rannsóknin er meðal annars framhald á eldri rannsókn sem einnig var styrkt af Heilbrigðismálastofnun Bandaríkjanna, en greint var frá niðurstöðum hennar árið 2008. Þar komu fram tengsl milli breytileika í erfðavísi og líkum á því að ánetjast nikótíni. Vegna þeirra áhrifa sem breytileikinn hefur í för með sér á reykingavenjur fylgja honum auknar líkur á því að fá reykingatengda sjúkdóma á borð við lungnakrabbamein og útæðasjúkdóm.