Titanic að breytast í ruslahaug

Titanic leggur upp í jómfrúrferðina.
Titanic leggur upp í jómfrúrferðina. AP

Fari svo fram sem horfir mun flak risaskipsins Titanic brátt fara á kaf í rusl og úrgang. Bjórdósir, plastglös og ýmsar umbúðir eru í flakinu og umhverfis það og skipið er síður en svo að ryðga í sundur þar sem það liggur á 3.780 metra dýpi á botni Norður-Atlantshafsins.

„Skrokkur skipsins er býsna heillegur,“ segir James Delgado, forstjóri bandarísku sjávarminjastofnunarinnar. „Það er meira að segja bæði viður og tauefni sem hefur varðveist inni í skipinu.“

Jamie Shreeve, einn ritstjóra tímaritsins National Geographic, segir að skipið eyðist afar hægt upp og að það ryðgi ekki í sundur næstu áratugina.

Allt frá því að Titanic sigldi á ísjaka í jómfrúrferð sinni frá Southhampton á Englandi til New York og sökk síðan hinn 15. apríl 1912 hafa skip sem siglt hafa hjá strandstað þess hent ýmsu góssi í hafið til að minnast strandsins.

Kafarar sem hafa farið að skipinu hafa einnig skilið ýmislegt þar eftir, til dæmis plastblóm, minningarplatta og ýmislegt annað. „Þetta er eins og slysstaður á hraðbraut,“ segir Shreeve.

Þess verður minnst í ár að 100 ár eru frá slysinu, þar sem 1.500 manns létu lífið. Til dæmis verður eftirlíkingu af skipinu komið fyrir í höfuðstöðvum National Geographic Society í Washington. Þá verða meira en 5.500 munir, sem björguðust úr skipinu, seldir á uppboði í New York í næsta mánuði, þar á meðal borðbúnaður sem notaður var á fyrsta farrými og 17 tonna þungur hluti úr skrokki skipsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert