Íslenska tímaskráningar- og áætlunargerðarkerfið Tempo frá TM Software er söluhæsta viðbótin á sölutorgi ástralska upplýsingafyrirtækisins Atlassian, en sölutorgið er með stærri markaðstorgum fyrir viðskipti á fyrirtækjalausnum.
TM Software er dótturfélag Nýherja. Í tilkynningu frá Nýherja segir að velta í kringum Tempo-hugbúnaðinn hafi margfaldast og hann stefni í að verða 300% meiri en hann var í fyrra, en það hafi verið metár.
Í tilkynningunni segir að Tempo, sem er tímaskráningar- og áætlunargerðarviðbót fyrir Atlassian JIRA, hafi nú um 2.000 viðskiptavini í 70 löndum, þ.á m. mörg stærstu fyrirtæki heimsins eins og Deutsche Bank, Intel og AT&T. Tempo lausnin er einungis seld í gegnum netið.
Tempo er starfseining innan TM Software sem hefur verið rekin sem sproti og hefur tileinkað sér Lean Startup-fyrirkomulagið segir í tilkynningu Nýherja. Nú starfi um það bil 10 manns við Tempo hjá TM Software.