Metnaðarfyllsta tilraun frá upphafi til rannsókna á Mars varð að veruleika í nótt þegar geimfar á vegum NASA lenti á yfirborði rauðu plánetunnar, eftir 570 milljón km ferð frá Jörðu.
Andrúmsloftið var spennuþrungið í höfuðstöðvum Nasa í nótt enda var óljóst fram á síðustu mínútu hvort lendingin myndi heppnast. Gríðarlegur fögnuður greip um sig þegar myndir bárust af rykugum dekkjum Marsjeppans Forvitni óskemmds á Mars. Samkvæmt BBC lenti jeppinn, sem er eitt tonn að þyngd, í gíg skammt frá miðbaug plánetunnar.
Tæknilegt afreksverk
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur einnig fagnað áfanganum og segir hann tæknilegt afreksverk. „Vel heppnuð lending Forvitni, sem er fullkomnasta hreyfanlega rannsóknarstöð sem send hefur verið til annarrar plánetu, er tæknilegt afreksverk sem verður þjóðarstolt okkar til framtíðar,“ sagði Obama í yfirlýsingu í morgun. Hann bætti við að hafa mætti ólíklegan sigur með réttri blöndu af hugviti og staðfestu.
Marsjeppanum Forvitni var skotið á loft 26. nóvember árið 2011 og er honum ætlað að rannsaka hvort aðstæður á Mars voru einhvern tíma, eða eru jafnvel í dag, heppilegar fyrir örverulíf. Einnig verða aðstæður kannaðar með það í huga hvort mögulegt verði einhvern daginn að senda mönnuð geimför til Mars.
Aðeins 40% Marsferða hafa heppnast
Kostnaðurinn við gerð rannsóknarstofunnar hreyfanlegu var um 2,5 milljarðar Bandaríkjadala og því mikið í húfi að lendingin lukkaðist, en frá árinu 1960 hafa tilraunir alþjóðlegra geimrannsóknarstöðva til Marsferða aðeins heppnast í tæplega 40% tilfella. Þetta er fjórða geimfarið sem NASA sendir til Mars.
Þess má geta að Forvitni er með sína eigin twittersíðu þar sem greint er frá þróun mála í þessari spennandi rannsóknarför. Þegar lendingin var afstaðin birtust m.a. eftirfarandi tíst:
„Ég er lent örugglega á yfirborði Mars. GÍGURINN GALE, ÉG ER OFAN Í ÞÉR!!!“
„Eitt sinn var talað um eitt stórt skref ... núna eru það sex stór hjól.“