Marsjeppinn Forvitni (e. Curiosity) fór í sína fyrstu ökuferð á Mars í dag. Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hélt blaðamannafund af því tilefni í dag og dreifði myndum sem Forvitni tók á ferð sinni, sem tók sextán mínútur.
Forvitni fór ekki nema um sex metra á sextán mínútum en ferðin var sérlega stutt þar sem um tilraunaferð var að ræða. Á blaðamannafundi NASA var upplýst um það að allt hefði gengið eins og vonast var eftir. „Aðeins eru sextán dagar liðnir af verkefni sem taka á tvö ár,“ sagði Pete Theisinger, verkefnastjóri hjá NASA. Enn eigi því eftir að gera mun fleiri tilraunir.
Á Stjörnufræðivefnum er einnig greint frá ökuferðinni en einnig að innan nokkurra vikna hefjist ökuferðin að Glenelg sem er fyrsta stóra rannsóknarstopp Forvitni, 400 metra í austur. „Á Glenelg mætast þrjár tegundir af jarðlögum sem gerir staðinn forvitnilegan. Þar verður borvélin á arminum notuð í fyrsta sinn. Eftir það hefst ferðin að rótum Sharpfjalls en sú tekur nokkra mánuði. Þegar best lætur mun jeppinn aka 50 til 100 metra á dag,“ segir á vefnum.