Fundu reikistjörnu í nálægasta stjörnukerfinu

Þessi víðmynd sýnir björtu stjörnuna Alfa Centauri en hún var …
Þessi víðmynd sýnir björtu stjörnuna Alfa Centauri en hún var búin til úr ljósmyndum sem teknar voru í Digitized Sky Survey 2 verkefninu. Stjarnan virðist stór vegna ljósdreifingar í sjóntækjum sjónaukans sem og á ljósmyndinni. Mynd/ESO/Digitized Sky Survey 2

Evrópskir stjörnufræðingar hafa fundið reikistjörnu með álíkan massa og jörðin á braut um stjörnu í Alfa Centauri, sem er nálægasta stjörnukerfi við jörðina. Þótt reikistjarnan sé á stærð við jörðina er hún samt ólífvænleg vegna nálægðar við sína móðurstjörnu. Niðurstöðurnar verða birtar í vefútgáfu tímaritsins Nature á morgun.

Greint er frá fundinum á Stjörnufræðivefnum. Þar segir að Alfa Centauri kerfið sé þriggja stjarna - kerfi tveggja stjarna áþekkum sólinni okkar, sem hringsóla hver um aðra og nefnast Alfa Centauri A og B, auk fjarlægari og daufari rauðri dvergstjörnu sem kallast Proxima Centauri. Kerfið er það nálægasta við sólkerfið okkar, í aðeins 4,3 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Þá segir að frá nítjándu öld hafi stjörnufræðingar velt vöngum yfir hugsanlegum reikistjörnum í kerfinu en aldrei fundið, fyrr en nú. Reikistjarnan fannst með HARPS mælitækinu á 3,6 metra sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Síle.

Um er að ræða fyrstu reikistjörnuna með massa á við jörðina sem finnst í kringum stjörnu sem líkist sólinni okkar, þ.e. Alfa Centauri B sem er þó örlítið minni og daufari. Reikistjarnan er hins vegar of nálægt móðurstjörnu sinni og því allt of heit til þess að líf eins og þekkist á jörðinni geti þrifist.

„Þessar niðurstöður marka stórt skref í átt til þess að við finnum tvíburasystur jarðar í næsta nágrenni við sólina okkar. Við lifum á spennandi tímum!“ er haft eftir Xavier Dumusque, aðalhöfundi greinar um rannsóknina, á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert