Vonir glæðast um líf á öðrum hnöttum

Er líf þarna úti? Hugsanlega.
Er líf þarna úti? Hugsanlega. mbl.is

Enn sem komið er hafa engar áþreifanlegar sannanir fundist um líf á öðrum hnöttum en nýtilkomin uppgötvun plánetu svipaðrar jörðinni í næsta sólkerfi glæðir þó vonir um að einhvers staðar þarna úti sé líf að finna.

Uppgötvunin kemur fram rétt áður en öflugustu stjörnusjónaukar sögunnar verða teknir í notkun. Á þessum tímamótum virðast margir taka því sem sjálfsögðum hlut að líklega sé eða hafi verið líf á öðrum hnöttum.

„Ég held að vísindamenn séu mjög ánægðir að rætt sé um líkindin á lífi á öðrum plánetum á yfirvegaðan hátt,“ segir Bob Nichol, stjörnufræðingur við Portsmouth-háskólann í Bretlandi, í samtali við Reuters-fréttastofuna. Hann segir að umræðan um líf í geimnum hafi eflst mikið nú í vikunni er lífvænleg pláneta uppgötvaðist í Alpha Centauri-sólkerfinu. Fleiri sambærilegar plánetur hafa fundist undanfarin ár. Þá má ekki gleyma einstökum myndum frá Mars sem geimjeppinn Forvitni hefur tekið - þær myndir hafa enn á ný vakið umræðuna um líf í alheiminum.

„Sprenging í fjölda þessara pláneta eykur líkurnar,“ segir Nichol. Ákveðnar vísbendingar hafi komið fram um líf í alheiminum, en engar sannanir enn sem komið sé.

Vísindamenn við Rannsóknarstöðina í Genf segja að plánetan sem uppgötvaðist í vikunni sé of nálægt sinni sól til að þar geti fundist líf. Hins vegar gefi fyrri rannsóknir til kynna að ef ein pláneta finnst á sporbaug um sól séu yfirleitt fleiri í sama kerfi.

Nú munu stjörnufræðingar rannsaka Alpha Centauri-kerfið ítarlega í leit að enn lífvænlegri plánetum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert