Brátt mun koma á markað snjallsímaforritið Alfreð sem hjálpar þeim sem eru í atvinnuleit að fá upplýsingar beint í símann um starf sem viðkomandi snjallsímaeigandi gæti haft áhuga á.
Hugbúnaðarfyrirtækið Stokkur, sem sérhæfir sig í þróun snjallsímaforrita, hannaði forritið. Áætlanir gera ráð fyrir að það verði notendum til taks í janúar.
„Fólk mun geta farið í gegnum atvinnuauglýsingar og vaktað ákveðna tegund starfa eða starfsgreinar. Ef þú ert t.d. rafvirki geturu hakað við það og alltaf þegar verið er að leita að rafvirkja lætur appið vita,“ segir Helgi Pjetur Jóhannsson.
Í forritinu má finna alls kyns upplýsingar sem eru gagnlegar fyrir þá sem eru í atvinnuleit. Til að mynda hvernig þú átt að haga þér í atvinnuviðtali og hvernig þú gerir ferilskrá.
„Ef þú ert áhugasamur um starfið og vilt hafa það á bak við eyrað lætur Alfreð þig vita með 2-4 daga fyrirvara áður en umsóknarfresturinn rennur út,“ segir Helgi Pjetur.
Hugmyndin kviknaði í ráðningarferli
Hann segir að notendur muni jafnframt geta skoðað atvinnuauglýsingar í heild sinni eins og þær birtast t.a.m. í fjölmiðlum.
„Ef eitthvert fyrirtæki hefur sett auglýsinguna inn í blað verður hún aðgengileg í appinu líka,“ segir Helgi.
Hugmyndin kviknaði þegar Stokkur var að ráða til sín starfsmann.
„Ég var andvaka nótt eina þegar hugmyndin kviknaði. Við hjá Stokki vorum sjálfir að ráða til okkar starfsmann og okkur fannst vanta betri miðlun atvinnutækifæra. Því ákváðum við að stökkva á þetta,“ segir Helgi.
Nýtist líka þeim sem ekki eru í sérstakri atvinnuleit
„Ég held jafnframt að þetta geti nýst fólki sem vill fylgjast með því sem er að gerast í því fagi sem það starfar við. Fyrirtæki geta því einnig laðað til sín fólk sem er ekki endilega í atvinnuleit og þar af leiðandi mögulega náð til stærri hóps en ella,“ segir Helgi.
„Fyrst um sinn munum við sjálfir setja inn auglýsingar sem finna má í t.d. í blöðum. Í framtíðinni er hugmyndin að selja atvinnuauglýsingar í appið,“ segir Helgi.