„Vinátta þeirra var ósvikin og traust“

Áhöfnin: Fremri röð f.v.: Rick D. Husband, Kalpana Chawla og …
Áhöfnin: Fremri röð f.v.: Rick D. Husband, Kalpana Chawla og William C. McCool. Aftari röð f.v.: David M. Brown, Laurel B. Clark, Michael P. Anderson og Ilan Ramon. AFP

„Þau voru merkilega samhent miðað við þann ólíka bakgrunn sem þau höfðu,“ segir ekkja flugstjóra bandarísku geimferjunnar Columbiu. Tíu ár eru í dag frá því að ferjan splundraðist í gufuhvolfinu þegar hún var á leið til jarðar. Sjö geimfarar fórust í slysinu sem varð til þess að ákveðið var að leggja bandarísku geimferjunum.

„Vinátta þeirra var ósvikin og traust. Og þau nutu félagsskap hvers annars. Ég meina, það er er blessun í hvaða starfi sem þú ert í að geta haft gaman með samstarfsfólkinu,“ segir ekkjan, Evelyn Husband Thompson.

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, minnist slyssins í dag við athöfn í Arlington-þjóðarkirkjugarðinum nálægt Washingtonborg.

George W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ákvað eftir slysið að binda enda á geimferjuáætlun Bandaríkjanna sem hófst árið 1972 í forsetatíð Richards Nixons. NASA var þó heimilað að nota geimferjurnar til að standa við skuldbindingar sínar um flutninga í Alþjóðageimstöðina, ISS. Geimferjuáætluninni lauk síðan í júlí 2011. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hóf nýja geimferðaáætlun árið 2010 og samkvæmt henni eiga einkafyrirtæki að sjá um að flytja birgðir og síðar geimfara í Alþjóðageimstöðina.

Columbia splundraðist á leið til jarðar eftir 28. geimferð sína 1. febrúar 2003. Sjö manna áhöfn annarrar geimferju, Challenger, fórst í janúar 1986 þegar sprenging varð í henni skömmu eftir flugtak.

Einnig verður athöfn í safni um ferjuna í bænum Hemphill í Texas en brak úr ferjunni lenti þar er hún sprakk.

Hvað gerðist?

En hvað gerðist þennan örlagaríka dag?

Elsta geimferja NASA, Columbia, var að koma úr 16 daga leiðangri er hún splundraðist yfir Texas aðeins fáum mínútum áður en hún átti að lenda í Cape Canaveral. Gat hafði myndast í vinstri væng skutlunnar og þangað streymdi heitt loft sem varð til þess að hún tættist í sundur í andrúmsloftinu. Gatið hafði myndast er flaugin tók á loft er einangrun sem losnað hafði af eldsneytistangi skutlunnar losnaði og skall á vængnum.

NASA vissi að vængurinn hefði orðið fyrir höggi, þetta hafði gerst áður. Því var ekki talið að vandamálið væri alvarlegt. 

Um borð voru sjö geimfarar og létust þeir allir. Þeir voru: Flugstjórinn Rick Husband, auk William McCool, Kalpana Chawla, Michael Anderson, Dr. Laurel Clark, Dr. David Brown og Ilan Ramon, sem var fyrsti ísraelski geimfarinn.  Husband, Chawla og Anderson höfðu áður farið út í geim en aðrir um borð voru í sinni fyrstu geimferð.

Leiðangurinn var farinn í vísindaskyni.

Fjölskyldur geimfaranna biðu á vellinum í Flórída þar sem ferjan átti að lenda. Er flugumferðarstjórn missti samband við ferjuna voru fjölskyldurnar fluttar í höfuðstöðvar NASA á vellinum og þeim færð tíðindin. Sex af sjö geimförum voru giftir og flestir áttu þeir börn.

Í kjölfar slyssins var þremur geimferjum NASA lagt. Rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að slysið hefði orðið í kjölfar þess að eldsneytistankurinn laskaðist en einnig var niðurstaðan sú að mannleg mistök hefðu átt sér stað. NASA hefði sífellt tekið meiri áhættu til að standast áætlun.

Geimferjunum sem var lagt fóru aftur á loft 2½ ári síðar eftir að öryggisráðstafanir höfðu verið hertar. Þeim hefur nú öllum verið lagt og komið fyrir á söfnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert