Konan sem fann Ríkharð III.

Í þrjú ár hefur Philippa Langley helgað sig einu málefni; að finna bein Ríkharðs III. og endurreisa mannorð hans. Leitin að beinunum gekk betur en hún hafði þorað að vona, en í gær var upplýst að þriggja mánaða rannsókn á beinagrind sem fannst í september 2012 hefði leitt í ljós að þetta eru bein Ríkharðs III.

Sjónvarpsstöðin Channel 4 sýndi í gær heimildarmynd um leitina að Ríkharði III. Sú sem átti frumkvæði að leitinni er Philippa Langley, handritshöfundur frá Edinborg. Fyrir þremur árum stofnaði hún félag sem hafði að markmiði að safna peningum til að fjármagna leit að beinum Ríkharðs III. Hún setti upp netsíðu og bað almenning að styrkja verkefnið. Áhugi á þessu verkefni reyndist mikill og peningar streymdu að, alls staðar úr heiminum.

Þegar fjármagnið var tryggt sneri Langley sér til Háskólans í Leicester til að fá vísindamenn hans til liðs við sig. Hún var sjálf búin að rannsaka sögu Ríkharðs III. og hafði myndað sér þá skoðun að líklegast væri að beinin væri að finna undir bílastæði í borginni. Þar hafði verið kirkja og hún taldi sennilegast að lík konungsins hefði verið grafið í henni. Vísindamennirnir sögðu í samtali við Channel 4 að þau rök sem Langley hefði fært fyrir máli sínu hefðu verið sannfærandi og því hefði verið ákveðið að hefja leitina á bílastæðinu.

Konungurinn fannst á bílastæðinu R

Á einu stæði á bílastæðaplaninu hafði verið skrifað stafurinn R (Rex þýðir konungur á látínu). Langley sagði áður en uppgröfturinn hófst að hún hefði sterkt á tilfinningunni að þarna undir lægi konungurinn. Það reyndist rétt.

Strax og fornleifauppgröfturinn hófst fundust minjar sem staðfestu að þarna undir væru mannvistarleifar. Mjög fljótlega fannst beinagrind sem vakti áhuga fornleifafræðinga. Það var einkum þrennt sem gat bent til að þarna væru bein Ríkharðs III. Sá sem þarna lá hafði verið með alvarlega hryggskekkju. Höfuðkúpan lá ofar í gröfinni en sjálf beinagrindin sem benti til þess að líkið hafi verið höfuðlaust þegar því var komið fyrir í gröfinni. Þá voru greinileg sár á höfuðkúpunni, m.a. eitt sem benti til þess að einstaklingurinn hefði fengið þungt högg aftan á hálsinn.

Greint var frá beinafundinum á blaðamannafundi í september og síðan hafa vísindamenn gert ítarlegar rannsóknir á beinagrindinni sem miðuðu að því að staðfesta eða hrinda kenningum um að þetta væru bein Ríkharðs III. Niðurstaðan var svo kynnt formlega í gær. Hún er sú að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að þetta séu bein konungsins, sem lést í orrustu 1485.

Ekki slæmur kóngur heldur góður kóngur

Philippa Langley, sem er liðsmaður í Félagi Ríkharðs III., er að sjálfsögðu afar ánægð með að búið sé að finna konunginn. Hún vonast eftir að áhuginn á örlögum Ríkharðs III. hjálpi til með að endurreisa mannorð hans, en hún er sannfærð um að sú mynd sem eftirmaður hans, Hinrik VII., og afkomendur hans hafa dregið upp af Ríkharði sé röng. Ríkharður III. hafi ekki verið harðstjóri og illmenni eins og Shakespeare hélt fram í leikriti um hann. Hún er einnig sannfærð um að Ríkharður III. hafi ranglega verið sakaður um að hafa myrt prinsana í turninum (bróðursyni sína) sem hurfu með dularfullum hætti eftir að Ríkharður tók við völdum árið 1483.

Liðsmenn í Félagi Ríkharðs III. telja að nú sé tækifæri til að fá fólk til að hlusta á hina sönnu sögu um Ríkharð III. sem félagið kallar „Good King Richard“.

Ríkharður ofmat styrk sinn í orrustunni

Ríkharður III. féll í orrustunni við Bosworth árið 1485. Hann var síðasti konungur Englands til að falla í orrustu. Þó þessi orrusta sé einn frægasti atburður í enskri sögu eru heimildir um margt ótraustar um það sem gerðist.

Ríkharður III. mætti keppinauti sínum Hinriki Tudor 22. ágúst 1485. Her konungsins var talsvert stærri en her Hinriks. Allt bendir til að Ríkarður III. hafi verið fullur sjálfstrausts og hafi ætlað að ganga endanlega frá keppinauti sínum.

Njósnari hafði gefið Ríkharði upplýsingar um að Hinrik væri liðfár og því stefndi Ríkharður beint á Hinrik með menn sína. Þeir drápu nokkra menn, en Ríkharður virðist hafa ofmetið styrk sinn því að liðsmenn Hinriks náðu að særa hest Ríkharðs og fella hann af baki. Einangraður og umkringdur hermönnum Hinriks átti Ríkharður enga möguleika á að bjarga lífi sínu.

Heimildir herma að eftir að Ríkharður III. féll hafi hermenn misþyrmt líki hans. Vísindamenn fundu 10 sár á beinagrindinni sem fannst undir bílastæðinu í Leicester og sum þeirra bentu til þess að hann hafi verið stunginn eftir að hann lést. Samkvæmt heimildum var lík Ríkharðs III. flutt til Leicester og sýnt almenningi. Rannsókn á gröfinni á bílastæðinu í Leicester bendir til að líkinu hafi verið komið nöktu fyrir í gröfinni og að það hafi ekki verið sett í kistu.

„Ekki andlit harðstjóra“

Hinrik Tudor hafði verið í útlegð í Frakklandi í 14 ár þegar hann réðst gegn Ríkharði í ágúst 1485 í Bosworth. Hann var aðalsmaður af ætt Lancaster. Eftir sigurinn giftist hann Elizabetu af York, sem var dóttir Edwards IV. Með giftingunni treysti hann kröfu sína til konungsdóms, en hún var reist á veikum grunni. Sonur hans, Hinrik VIII., og Elísabet I. höfðu hag af því að sverta minningu Ríkharðs III.

Í leikriti Shakespeares um Ríkarð III. er konungurinn sýndur sem krypplingur. Dregin er upp sú mynd af honum að hann hafi verið illmenni og harðstjóri.

Eftir að bein Ríkharðs III. fundust var búin til endurgerð af höfði hans. Þegar Philippa Langley sá höfuð konungsins sagði hún: „Þetta andlit lítur ekki út fyrir að vera andlit harðstjóra.“

Íbúar í York vilja fá beinin heim

Áformað er að bein Ríkharðs III. verði jarðsett í dómkirkjunni í Leicester. Ekki eru þó allir sáttir við það. Bæjaryfirvöld í York hafa skrifað Elísabetu drottningu bréf og óskað eftir því að hún beiti sér fyrir því að konungurinn verði jarðsettur í York. Ríkharður var síðasti konungurinn af York-ætt. Hann ólst upp í Middleham-kastala í Yorkshire, konan hans var frá York og sonur hans er grafinn í York. Í York er hafin undirskriftasöfnun til að fá bein Ríkharðs III. heim. Sambærileg söfnun er hafin í Leicester um að beinin verði grafin þar.

Höfuðkúpa Ríkharðs III.
Höfuðkúpa Ríkharðs III. -
Til að staðfesta að beinin sem fundust undir bílastæðinu væru …
Til að staðfesta að beinin sem fundust undir bílastæðinu væru af Ríharði III. var tekið DNA-sýni úr Michael Ibsen sem er nánasti ættingi Ríkharðs í 17. lið. Hér heilsar hann upp á endurgerð af höfuði konungsins. JUSTIN TALLIS
Philippa Langley
Philippa Langley
Endugerð af höfði Ríkharðs III.
Endugerð af höfði Ríkharðs III. JUSTIN TALLIS
Bein Ríkharðs III. verða jarðsett í kirkjunni í Leicester.
Bein Ríkharðs III. verða jarðsett í kirkjunni í Leicester. ANDREW COWIE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert