Halastjarna á himni í næstu viku

Halastjarnan PanStarrs verður lágt á himni upp úr miðjum marsmánuði.
Halastjarnan PanStarrs verður lágt á himni upp úr miðjum marsmánuði. Mynd/Stjörnufræðivefurinn - Andri Ómarsson

Árið 2013 stefnir í að verða gott halastjörnuár og fá áhugamenn um himingeiminn ýmislegt fyrir sinn snúð, m.a. í næstu viku. Þá ætti að sjást með berum augum á himninum yfir Íslandi halastjarna sem komin er langt að utan úr geimnum.

Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að þegar best lætur gæti halastjarnan PANSTARRS  orðið álíka björt yfir Íslandi og stjörnurnar í Karlsvagninum, þ.e. nógu skær til að sjást með berum augum sem er ekki ýkja algengt í tilfelli halastjarna.

Því er um að gera að horfa til himins í næstu viku en besti tíminn til að skoða hana ætti að vera 12.-20. mars, þegar hún verður mjög lágt á himninum við sólsetur.

Úr risavöxnu skýi með milljörðum halastjarna

Stjörnufræðingar við Havaíháskóla á Maui fundu halastjörnuna PANSTARRS árið 2011 með sjónaukanum Pan-STARRS 1. Sá býr yfir eini stærstu stafrænu myndavél heims, með 1,4 milljörðum pixla. Sjónaukinn skannar himininn með því að taka myndir af honum á 45 sekúnda fresti og er hver mynd næstum 3 gígabæt að stærð.

Þegar halastjarnan fannst var hún í næstum 1.200 milljóna km fjarlægð frá sólinni. Stjörnufræðingum tókst í kjölfarið að reikna út að snemma árs 2013 kæmist hún í innan við 50 milljóna km fjarlægð frá sólinni.

Sem fyrr segir er halastjarnan PANSTARRS komin langt að, sennilega djúpt utan úr risavöxnu skýi sem inniheldur milljarða halastjarna og er ef til vill 100.000 sinnum lengra frá sólu en jörðin. Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að þetta sé líklega fyrsta ferðalag PANSTARRS úr heimkynnum sínum inn í sólkerfið og hugsanlega snýr hún aldrei aftur.

Mælt er með handsjónauka

Útsýnið á næturhimninum gæti orðið sérstaklega fallegt að kvöld 13. mars að sögn Stjörnufræðivefsins. Þótt halastjarnan sjáist með berum augum má njóta hennar enn betur með einföldum handsjónauka.

Stjörnuskoðunarfélagið stefnir á að bjóða fólki að kíkja til sín í Valhúsaskóla einhvern tímann í næstu eða þarnæstu viku þegar veður leyfir til að skoða halastjörnuna. Nánari upplýsingar um stjörnuna má sjá á Stjörnufræðivefnum auk þess sem fjallað er um hana í nýjasta þætti Sjónaukans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka