Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í dag nýjan veflykil sem Þjóðskrá Íslands hefur þróað til að tryggja einfalda og örugga leið til auðkenningar inn á vefi.
Lykillinn nefnist Íslykill og hann má nota til innskráningar á einstaklingsmiðaðar síður hjá stofnunum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem nýta sér innskráningarþjónustu Ísland.is, segir í fréttatilkynningu.
Ísykillinn samanstendur af kennitölu og leyniorði. Þegar þörf er á viðbótaröryggi er hægt að styrkja Íslykilinn með talnarunu sem send er sem smáskilaboð í farsíma. Frá og með deginum í dag geta einstaklingar og fyrirtæki pantað Íslykil á www.island.is. Íslykill stendur öllum aldurshópum til boða.
„Þjóðskrá Íslands gefur út vegabréf og nafnskírteini. Íslykill frá Þjóðskrá Íslands er rökrétt framhald af þeirri útgáfu og má líta á hann sem eins konar nafnskírteini á netinu. Innskráningarþjónustu Ísland.is var hleypt af stokkunum fyrir fimm árum og hefur hún skapað góðan grundvöll fyrir rafræna stjórnsýslu. Boðið hefur verið upp á innskráningu með veflykli ríkisskattstjóra og rafrænum skilríkjum. Þessi þjónusta er nú nýtt á um 70 vefjum. Daglega skrá þúsundir sig inn á einstaklingsmiðaða vefi í gegnum innskráningarþjónustu Ísland.is. Auk þess hefur þjónustan nú verið notuð tvö ár í röð við kosningar um verkefni í hverfum Reykjavíkurborgar og með því verið tekin mikilvæg skref í þróun rafræns lýðræðis,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.