Ættartengslin í lófanum

Íslendinga-app.
Íslendinga-app.

Ættfræðiáhugi Íslendinga er nær einstakur á heimsvísu og minnkaði hann ekki með tilkomu Íslendingabókar. Á morgun verður stigið næsta skref og ættfræðigrunnur Íslendingabókar gerður aðgengilegur í snjallsímum með Android-stýrikerfi. Því má segja að Íslendingar geti verið með ættartengslin í lófanum.

Íslensk erfðagreining og Háskóli Íslands efndu nýverið til keppni meðal nema úr öllum háskólum á Íslandi og Íslendinga við nám í erlendum háskólum. Keppnin gengur út á að búa til smáforrit, Íslendinga-app, sem er í raun Íslendingabók í snjallsímanum.

Tólf lið skráðu sig til leiks og sex þeirra skiluðu inn lausnum fyrir skilafrest sem var um miðja viku. Í dag var svo opnað fyrir atkvæðagreiðslu á samskiptavefnum Facebook þar sem almenningur getur komið sinni skoðun á framfæri, en hún hefur nær jafnt vægi á við dómnefnd.

„Komið hafa fram mjög góðar hugmyndir, mjög nýstárlegar hugmyndir og fallegar útfærslur,“ segir Þórður Kristjánsson sem situr í dómnefndinni. „Ég geri ráð fyrir að fleiri en ein hugmynd verði notuð, enda gengum við út frá því að fleiri en aðeins hugmyndin í fyrsta sæti gæti orðið hluti af Íslendingabók.“

Á morgun fer fram kynning á hugmyndum liðanna, hún hefst kl. 13 í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu og er hún öllum opin. Einnig má sjá beina útsendingu frá kynningunni. „Þar kynna liðin lausnir sína fyrir almenningi og dómnefnd. Og hægt verður að kjósa inni á Facebook meðan á kynningunni stendur en við gerum ráð fyrir að loka fyrir kosninguna fimmtán mínútum eftir að síðasta lið hefur kynnt sína lausn,“ segir Þórður.

Formaður keppnisstjórnar stýrir kynningum liðanna á lokadegi. Handahóf ræður því í hvaða röð liðin fá að kynna lausnir sínar. Hvert lið fær 10 mínútur til kynningar á lausn sinni. Að þeim loknum gefst dómnefnd fimm mínútur til fyrirspurna og athugasemda. Niðurstöður dómnefndar og almennings verða svo kynntar í kjölfarið.

Í fyrstu verðlaun er ein milljón króna sem liðsmenn skipta með sér auk þess sem gert er ráð fyrir því að vinningslausnin verði nýtt sem viðbót fyrir Íslendingabók.

Hér má nálgast lausnir liðanna:

Droid (Lið 1): 
http://islendinga.net/
https://play.google.com/store/apps/details?id=org.simmi.islbokdroid

Skyldleikur (Lið 2):
https://www.facebook.com/skyldleikur
https://play.google.com/store/apps/details?id=net.nemur.skyldleikur
http://skyldleikur.nemur.net/

App búllan (Lið 6):
https://www.facebook.com/IslendingaAppHugbunadarbullunnar
https://notendur.hi.is/~job13/bullan/IslendingaApp.apk

Sad Engineers Studios (Lið 7):
https://play.google.com/store/apps/details?id=is.ses.apps.islendingaapp
https://www.facebook.com/IslendingaAppSES

Hverra manna? (lið 8):
https://www.facebook.com/pages/Hverra-Manna-Ertu/516152051759734
https://www.facebook.com/hverramannaertu.app.9?fref=ts
http://users.metropolia.fi/~ellertk/HverraManna2.apk

Klárinn (lið 11):
http://islendingaapp.blogspot.com/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert