Framleiðendur hollensks raunveruleikaþáttar leita nú að þátttakendum sem eru tilbúnir til að fara aðra leiðina til Mars eftir tíu ár. Helstu kröfurnar eru góð heilsa, að vera góður í mannlegum samskiptum og búa yfir ríkri sjálfsbjargarviðleitni. Þá þarf viðkomandi að vera að minnsta kosti 18 ára og hafa góða enskukunnáttu.
Fyrir þessu stendur stofnunin Mars One og til stendur að senda fjóra einstaklinga til Mars árið 2023 í því skyni að búa til raunveruleikaþátt þar sem fylgst verður með ferðinni til Mars og því hvernig þátttakendum gengur að hafast þar við.
Það er þó ýmsum vandkvæðum bundið, meðal annars vegna þess að þar er ekkert vatn og engin fæða. Hitastig er þar að jafnaði -55°C og koltvísýringur er meginuppistaðan í andrúmsloftinu.
Þá er heldur ekki vitað hvort sú geislun sem geimfarar gætu orðið fyrir á leiðinni geti verið banvæn og að auki er óvíst hvort mannað geimfar gæti lent á rauðu plánetunni án þess að verða fyrir hnjaski.
Þrátt fyrir það hafa um 10.000 umsóknir frá 100 löndum borist nú þegar. Gangi allt samkvæmt áætlun verða fjórir einstaklingar sendir til Mars á tveggja ára fresti, alls sex hópar eða 24 manns.
Stofnandi og forstjóri Mars One, Bas Lansdorp, sagði á blaðamannafundi í New York í dag að kostnaðurinn við fyrstu geimförina yrði líklega sex milljarðar Bandaríkjadollara. „Það eru miklir peningar. En ímyndið ykkur hvað mun gerast þegar fyrsta fólkið stígur á Mars. Bókstaflega hver einasti jarðarbúi mun vilja sjá það.“
Hingað til hefur eingöngu tekist að senda ómönnuð för til Mars og margir hafa orðið til þess að draga áætlanir Mars One í efa. Einn þeirra, sem hefur staðfasta trú á þessum fyrirætlunum er Hollendingurinn Gerard 't Hooft, sem fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1999. Hann segir að langtímamarkmiðið með raunveruleikaþáttunum sé að byggja upp nýlendu á Mars.
Hægt er að sækja um þátttöku til 31. ágúst á vefsíðu Mars One.