Ertu nógu ævintýragjörn/gjarn til að reyna að vinna farmiða til Mars? Aðra leiðina? Hollenskur raunveruleikaþáttur tekur nú við umsóknum þeirra sem vilja komast til rauðu plánetunnar. Stefnt er að því að koma fyrsta manninum þangað innan tíu ára.
Umsækjendur þurfa að vera við góða heilsu, vera gott fólk og geta lifað við erfiðar aðstæður. Þeir þurfa að vera 18 ára eða eldri og kunna ensku.
Fyrirtækið sem býður farið heitir Mars One og stefnir að því að koma fyrstu geimförunum til Mars árið 2023. Ferðin er hluti af gerð raunveruleikaþáttur þar sem fylgst yrði með undirbúningi - og ferðalagi - fyrstu landnemanna í geimnum.
Ýmsar hindranir eru þó í veginum. Sú helsta er að enn er ekki víst að hægt verði að koma geimförunum aftur til jarðar. Þá gætu þeir þurft að búa í þröngum híbýlum og enn er ekki fullfrágengið á hverju þeir muni lifa á Mars - þar sem fæðu og vatn er þar ekki að finna.
Engu að síður segir stofnandi Mars One, Bas Lansdorp, að um 10 þúsund áhugasamir geimfarar hafi haft samband. Þeir eru frá yfir 100 löndum.
Í heildina leitar Mars One að sex fjögurra manna hópum. Stefnt er að því að senda hóp á tveggja ára fresti frá árinu 2022. Ferðin mun að öllum líkindum taka 7 mánuði.
Lansdorp segir að til standi að nota búnað og tækni sem sé þegar til staðar en ekki að byrja alveg frá grunni. Hann segir að fyrsta mannaða geimferðin til Mars muni kosta 6 milljarða Bandaríkjadala.
„Það hljómar eins og miklir fjármunir. Og það eru miklir fjármunir. En ímyndaðu þér hvað gerist þegar fyrsta fólkið lendir á Mars. Bókstaflega allir jarðarbúar munu vilja fylgjast með því.“
Margir efast um að verkefnið sé raunsætt. Þýski efnafræðingurinn Gerard 't Hooft, sem vann til Nóbelsverðlauna árið 1999, er þó meðal þeirra sem styðja verkefnið.
Hingað til hefur NASA aðeins sent ómönnuð geimför til Mars. Þekktast þeirra er Forvitni sem lenti á Mars í ágúst í fyrra.
Umsóknarfrestur rennur út 31. ágúst.