Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, safnar gögnum frá nokkrum af stærstu netfyrirtækjum Bandaríkjanna án þess að hafa samband við fyrirtækin eða óska eftir heimild fyrir því að sækja gögnin hverju sinni. Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Guardian, sem segist hafa undir höndum kynningarglærur frá NSA sem sýni að á síðustu 6 árum hafi stofnunin safnað þessum gögnum frá fyrirtækjum eins og Microsoft, Facebook, Google, Yahoo!, Youtube, Skype og Apple.
Kemur þessi uppljóstrun í kjölfar frétta í vikunni um að stofnunin fylgist með símtölum Bandaríkjamanna í miklum mæli og hafi haft aðgang að gögnum Verizon síðustu 2 mánuði. Talsmaður Hvíta hússins staðfesti þessa upplýsingaöflun en sagði hana nauðsynlega til að verjast hryðjuverkum.
Aðgangur NSA að gögnum netfyrirtækjanna fékkst með áður óupplýstu verkefni sem kallast PRISM, en það leyfir stofnuninni að safna gögnum eins og leitarsögu, tölvupóstum, spjallsamskiptum og skjölum sem send eru milli notenda.
Áður hafði mikið verið deilt um verkefnið FISA, sem var samþykkt í fyrra, en í meðferð þingsins var þar mikið dregið úr vægi verkefnisins og gagnaöflun var takmörkuð mikið, meðal annars vegna kvartanna frá netfyrirtækjunum.
Guardian segist hafa staðfest áreiðanleika gagnanna sem það hefur yfir höndum, en öll netfyrirtækin sem um ræðir hafa neitað að veita NSA aðgang og að þau hafi aldrei heyrt um PRISM verkefnið.
Með PRISM verkefninu kemst NSA beint inn á netþjóna fyrirtækjanna, að sögn Guardian og getur sótt þangað gögn sem hefur verið safnað saman eða raun-tíma gögn á ákveðna aðila.
Í kynningunni sem Guardian hefur undir höndum er sagt frá því að NSA hafi talið að FISA heimildirnar sem veittar voru í fyrra gengu ekki nægjanlega langt til að hafa hendur í hári mögulegra hryðjuverkamanna. Með „heimavallar yfirburðum“ gætu þó Bandaríkin nýtt sér upplýsingar frá fyrirtækjum sem hefðu höfuðstöðvar þar í landi.
FISA heimildirnar leyfðu einungis að gögn væru sótt ef báðir aðilar sem væru að eiga samskipti væru staddir utan Bandaríkjanna og var þá nauðsynlegt að sækja um heimild til að fá gögn yfir nákvæmlega þessa aðila. Með PRISM verkefninu og leynilegri heimild frá dómstól hafi aftur á móti NSA verið gert kleift að sækja sjálft upplýsingar um samskipti þegar sæmilegur grunur væri um að einn einstaklinganna sem um ræddi væri staddur erlendis þegar gögnin væru sótt.
Segir NSA í kynningunni að PRISM sé eitt af verðmætustu verkfærum stofnunarinnar til upplýsingaöflunar, en um 77 þúsund skýrslur hafa verið gerðar þar sem vísað er í PRISM verkefnið á síðustu árum.
Guardian segir að á síðustu árum hafi mikil aukning verið í gagnasókn NSA og meðal annars hafi árið 2012 verið 248% aukning í að sækja gögn til Skype, meðan 131% fjölgun varð á gagnaöflun frá Facebook.
James R. Clapper, yfirmaður þjóðaröryggismála í Bandaríkjunum, staðfesti í tilkynningu að gagnaöflunin ætti sér stað og að hún væri meðal mikilvægustu tækja yfirvalda til að afla upplýsinga um erlenda ógnir. Hann sagði þó að mikið væri um rangfærslur í umfjöllun Guardian og The Washington Post, sem einnig fjallaði um málið, en vildi ekki greina frá því hvaða atriði væru röng.