NASA útnefnir átta geimfara

Geimfari við störf.
Geimfari við störf. AFP

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur útnefnt átta nýja geimfara og er helmingur þeirra konur. Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem helmingur útnefndra geimfara eru konur.

Charles Bolden, forstjóri Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, segir nýju geimfarana koma til með að taka þátt í fyrirhuguðum leiðöngrum NASA til tunglsins árið 2020 og plánetunnar Mars árið 2030.

 „Þessi nýi hópur verður á meðal þeirra sem fá tækifæri til að taka þátt í og framkvæma þessa spennandi leiðangra,“ segir Bolden í frétt sem birt er á heimasíðu Bandarísku geimferðastofnunarinnar.

Alls sóttu yfir 6.100 manns um stöðurnar en þeir sem hlutu útnefningu eru:

Nicole Aunapu Mann, 35 ára orrustuflugmaður í bandaríska landgönguliðinu; Anne McClain, 34 ára þyrluflugmaður; Jessica Meir, 35 ára aðstoðarprófessor við Harvard-háskóla; Christina Hammock, 34 ára haffræðingur; Josh Cassada, 39 ára flugmaður hjá sjóhernum; Victor Glover, 37 ára orrustuflugmaður; Tyler Hague, 37 ára hjá bandaríska flughernum og Andrew Morgan, 37 ára læknir í Bandaríkjaher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert