Sölvi Páll hakkari ársins

Sig­ur­veg­ari í Hakk­ara­keppni HR árið 2013 er Sölvi Páll Ásgeirs­son, nemi á öðru ári í kerf­is­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík en níu kepp­end­ur keppt­ust að ráða yfir tölvu hinna kepp­end­anna í hálf­tíma fyr­ir full­um sal á föstu­dags­kvöldið.

Kepp­end­urn­ir komu úr nem­enda­hópi HR og at­vinnu­líf­inu auk þess sem tveir er­lend­ir kepp­end­ur flugu sér­stak­lega til lands­ins til að keppa í úr­slit­un­um. Stig voru gef­in eft­ir því hvað kepp­end­ur voru lengi með yf­ir­ráð yfir tölvu annarra kepp­enda. Dr. Ýmir Vig­fús­son, lektor við tölv­un­ar­fræðideild HR, lýsti keppn­inni og hélt sam­tím­is fyr­ir­lest­ur um tölvu­ör­yggi, sam­kvæmt til­kynn­ingu frá Há­skól­an­um í Reykja­vík.

 Sölvi Páll seg­ir í frétta­til­kynn­ingu þátt­töku í Hakk­ara­keppn­inni hafa verið lær­dóms­ríka. „Þetta krefst þess að stíga út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann. Þó að ég hafi verið fyr­ir fram­an tölvu­skjá­inn frá því ég var krakki þá eru þetta allt örðuvísi aðstæður en maður er van­ur.“ Hann seg­ir góðan und­ir­bún­ing skipta miklu máli en kepp­end­ur vita það með nokk­urra vikna fyr­ir­vara að þau keppi í úr­slit­um. „Ann­ars var þetta ótrú­lega skemmti­leg reynsla og mér finnst þessi keppni al­gjör snilld.“ Sölvi Páll er á öðru ári í kerf­is­fræði í HMV, há­skóla­námi með vinnu, en hann starfar í Reikni­stofu bank­anna.

Tölvu­hakk eða tölvu­inn­brot snú­ast um að finna hugs­an­leg­ar „hol­ur“ í for­rit­um með það fyr­ir aug­um að koma inn í þau fals­upp­lýs­ing­um sem breyta eig­in­leik­um og hegðun þeirra. Til­gang­ur með hakk­ara­keppni er að kenna næstu kyn­slóð for­rit­ara að þekkja and­stæðing­inn og fyr­ir­byggja árás­ir tölvuþrjóta. Tölvu­inn­brot nú­tím­ans eru ekki leng­ur fram­kvæmd af for­vitn­um ung­ling­um held­ur af stór­um skipu­lögðum glæpa­sam­tök­um. Þessi glæpa­sam­tök nýta sér afar bága stöðu upp­lýs­inga- og tölvu­ör­ygg­is til að stela upp­lýs­ing­um, mis­nota búnað, fram­kvæma iðnaðarnjósn­ir og skemma fyr­ir sam­keppn­isaðilum viðskipta­vina sinna. Til að geta fyr­ir­byggt árás­ir tölvuþrjóta er nauðsyn­legt að vita hvernig þrjót­arn­ir hugsa.

Dr. Ýmir Vig­fús­son, lektor við tölv­un­ar­fræðideild HR og einn stofn­enda ör­ygg­is­fyr­ir­tæk­is­ins Synd­is, er forsprakki Hakk­ara­keppn­inn­ar. „Flest ís­lensk fyr­ir­tæki hafa tak­markaða þekk­ingu á hvernig unnt sé að tryggja upp­lýs­inga­ör­yggi. Í mörg­um ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um er litið fram­hjá þess­um vanda, enda er hann víðþætt­ur og flók­inn. Menn telja sig oft nægi­lega verndaða með því að nota víru­svarn­ir og eld­veggi en því fer fjarri að slík­ur búnaður nægi. Gall­arn­ir liggja oft í sér­smíðuðum hug­búnaði, rangri upp­setn­ingu og ýms­um mann­leg­um þátt­um. Sem dæmi hef­ur starfs­fólk í stór­fyr­ir­tækj­um verið lokkað til að setja smitaða USB-lykla í vinnu­stöðvarn­ar sín­ar. Þá er einnig ein­fald­lega hægt að mæla tím­ann á milli slaga þegar þú slærð lyk­il­orðið þitt inn og nota síðan lík­an af því hvernig fing­ur hreyf­ast til að álykta hvað það er” er haft eft­ir Ými í frétta­til­kynn­ingu.

Þetta var í þriðja skipti sem Hakk­ara­keppni HR er hald­in.  Yfir 50 manns tóku þátt í undan­keppni Hakk­ara­keppn­inn­ar en níu kepptu í úr­slit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert