Vísindamenn segjast hafa fundið vísbendingar um að Miklihvellur hafi átt sér stað fyrir um fjórtan milljörðum ára. Talið er að þetta séu fyrstu beinu vísbendingarnar um útþenslu alheimsins, að því er segir í frétt AFP.
Sérfræðingar í stjarneðlisfræði við Harvard-Smithsonian Center hafa birt niðurstöður nýrrar rannsóknar en þeir segjast hafa fundið vísbendingarnar með hjálp sjónauka á suðurheimskautinu.
Fleiri vísindamenn munu nú fara vel og vandlega yfir rannsóknina.
„Þetta er stórbrotið,“ sagði Marc Kamionkowski, prófessor hjá John Hopinks-háskólanum. „Ég hef séð rannsóknina. Röksemdafærslurnar eru sannfærandi og vísindamennirnir eru á meðal þeirra vönduðustu og íhaldssömustu sem ég þekki,“ sagði hann.
Samkvæmt kenningunni um Miklahvell var upphaf alheimsins rakið til gríðarlegrar sprengingar fyrir um 13,7 milljörðum ára og síðan hóf alheimurinn að þenjast út. Ekki hefur hins vegar tekist að sanna kenninguna nægilega vel hingað til.