Íslendingur rannsakar Miklahvell

Vetrarbrautin
Vetrarbrautin Reuters

„Við erum bara að reyna komast að hinu sanna um eðli alheimsins,“ segir Jón Emil Guðmundsson, ungur vísindamaður sem er í doktorsnámi við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Hann tekur nú þátt í tilraunaverkefninu Spider, þar sem þyngdarbylgjur eru rannsakaðar og leitað er ummerkja um óðaþenslu.

Stjarnvísindamenn tilkynntu í gær að fundist hefðu fyrstu sönnunargögnin um þyngdarbylgjur frá óðaþensluskeiði Miklahvells en uppgötvunin var gerð með Bicep2-útvarpssjónaukanum á Suðurskautslandinu. Tilraunir á borð við Spider-sjónaukann geta skorið úr um sannleiksgildi þeirra mælinga.

Hengja sjónauka í loftbelg

Jón Emil fer á Suðurskautslandið í lok október með hópi vísindamanna úr Princeton-háskóla en þar munu þeir senda sjónauka upp í um 40 km hæð með helíumloftbelg þar sem hann mun svífa í um það bil tuttugu daga.

Sjónaukanum er ætlað að taka mynd af örbylgjukliði, sem telst elsta ljósið í alheiminum, svokölluð bakgrunnsgeislun Miklahvells. „Munurinn á Spider og Bicep2 er að okkar tilraun hangir neðan úr loftbelg. Ástæðan fyrir því er sú, að ef þú ferð í 40 km hæð ertu með allt andrúmsloftið fyrir neðan þig til að mæla, þannig að þú ert í raun og veru í geimnum. Það má segja að þetta sé ódýrari útgáfa af gervitungli,“ segir Jón Emil.

Áralöng vinna framundan

Það mun taka mörg ár að vinna úr þeim gögnum sem fást úr sjónaukanum og sía út þessar niðurstöður hægt og bítandi, að sögn Jóns Emils.

Hann segir hið endanlega markmið vera sannleikann. „Við erum að leita að ummerkjum um þyngdarbylgjur og óðaþenslu til þess að komast að hinu sanna um alheiminn.“

Frétt mbl.is: Ein mesta uppgötvun stjarnvísindanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert