Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, og samstarfsmaður hans, Eric Oelkers, rannsóknarstjóri við Paul Sabatier háskólann í Toulouse í Frakklandi og gestaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, eru höfundar sjónarhorns (e. perspective) í nýjasta hefti vísindatímaritsins Science sem kemur út í dag. Þar benda þeir á að binda megi kolefni í berglög úr basalti til þess að draga úr koltvíoxíði í andrúmsloftinu og þannig vinna gegn hnattrænni hlýnun. Sigurður og Eric hafa leitt rannsóknarverkefni hér á landi sem miðar að þessu og lofa niðurstöður rannsóknanna góðu.
Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands segir að verkefnið beri heitið CarbFix og er unnið að því á rannsóknarstofum og við Hellisheiðarvirkjun í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur, erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir. Markmið þess er að finna leið til að binda koltvíoxíð, algengustu gróðurhúsalofttegundina, á föstu formi djúpt í hraunlögum í nágrenni virkjunarinnar. Slík binding koltvíoxíðs gæti dregið úr áhrifum koltvíoxíðs á loftslag. Koltvíoxíðið er leyst upp í vatni sem veitt er niður í borholu og með tímanum binst kolefnið berginu og myndar steintegundir.
Í greininni í Science, sem ber heitið „Carbon Storage in Basalt“, benda Sigurður og Eric á að allt kolefni í andrúmsloftinu, lífverum og höfunum eigi uppruna sinn í bergi. Kolefnið ferðist innan lífkerfisins og endi aftur í berginu í svokallaðri kolefnishringrás. Þessari hringrás hafi mennirnir hins vegar raskað með brennslu jarðefnaeldsneytis sem veldur því að koltvíoxíð hefur aukist í andrúmsloftinu, en það er eins og áður segir helsta ástæða hnattrænnar hlýnunar.
Ein af leiðunum sem vísindamenn hafa rannsakað og telja að unnið geti gegn aukningu koltvíoxíðs í andrúmslofti er að fanga það úr útblæstri orku- og iðjuvera og dæla því niður á mikið dýpi. Í Noregi hefur til að mynda koltvíoxíði verið dælt niður í setberg á botni Norðursjávar frá árinu 1996.
Sigurður og Eric benda hins vegar á það taki tugþúsundir ára fyrir koltvíoxíðið að bindast þeim steintegundum sem þar sé að finna. Basalt og steintegundir þess eigi hins vegar auðveldar með að hvarfast við koltvíoxíð og basalt sé þar að auki ein algengasta bergtegundin á yfirborði jarðar. Því sé ýmislegt sem bendi til þess að berg úr basalti geti nýst vel við bindingu koltvíoxíðs úr andrúmsloftinu.
Sigurður og Eric segja enn fremur í greininni að tilraunir í CarbFix-verkefninu, sem staðið hefur yfir undanfarin sjö ár, lofi góðu en yfir 80% af því koltvíoxíði sem dælt hafi verið ofan í jörðina við Hellisheiðarvirkjun hafi bundist berginu innan eins árs. Því sé útlit fyrir að þessi aðferð við bindingu koltvíoxíðs í fast efni sé fljótvirkari en aðrar aðferðir sem þekktar eru.
Kostnaður við að fanga og binda koltvíoxíð með þessari og öðrum þekktum aðferðum, sé það hár í samanburði við verð á útblásturskvóta að ekki sé enn sem komið er nægilegur fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki og þjóðir heims til að binda koltvíoxíð. Þá þurfi frekari rannsóknir og þróun á þessu sviði til þess að hægt verði að dæla koltvíoxíði í umtalsverðu magni niður í basaltberglög, en áætlað er að hægt sé að binda allt að 70 kíló af gróðurhúsalofttegundinni í hverjum rúmmetra af basaltbergi. Það þýði að hafsbotninn á jörðinni geti geymt meira af koltvíoxíði en sem nemur áætluðum útblæstri af lofttegundinni við bruna alls jarðefnaeldsneytis á jörðinni.