Vodafone hefur fengið vottað og staðfest að stjórnkerfi fyrirtækisins fyrir upplýsingaöryggi samræmist alþjóðlega upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001. Umfangsmikil árás var gerð á tölvukerfi Vodafone í fyrra, en talsmenn segja að markvisst hafi verið unnið að uppbyggingu á öflugu stjórnkerfi upplýsingaöryggis.
Vottunin felur í sér formlega viðurkenningu á því að upplýsingaöryggi sé stjórnað samkvæmt fyrirfram ákveðnum ferlum og fagleg vinnubrögð séu viðhöfð í hvívetna. Hún tryggir ennfremur stöðugar umbætur í upplýsingaöryggismálum. Vottunin nær til stjórnkerfis upplýsingaöryggis fyrir farsíma-, landlínu- og netþjónustu Vodafone, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
„Allir innviðir hafa verið yfirfarnir og öryggisferlar endurskoðaðir. Ýmis tæknileg mál hafa verið rýnd og þeim breytt þar sem þess var þörf. Vinnulag við meðferð gagna hefur verið skýrt og fræðsla í upplýsingaöryggismálum efld stórlega,“ segir í tilkynningu Vodafone.
Úttektin á upplýsingaöryggismálum Vodafone var í höndum The British Standard Institution (BSI), sem rýndi í vinnulag, ferla og virkni innan Vodafone. Úttektin náði m.a. til vinnulags við skráningar, vinnslu, geymslu og eyðingu gagna hjá fyrirtækinu. Niðurstöður úttektarinnar voru mjög jákvæðar og hefur Vodafone nú fengið afhent vottunarskírteini frá BSI til staðfestingar á fylgni við ISO-27001 staðalinn.
Héðan í frá verður endurúttekt á stjórnkerfinu gerð árlega, sem tryggir jákvætt aðhald og stöðugar umbætur í upplýsingaöryggismálum.