Átak í rafrænum skilríkjum

Flest rafræn skilríki hafa verið fyrir debetkort en nú færist …
Flest rafræn skilríki hafa verið fyrir debetkort en nú færist í aukana að þau séu sett í farsíma. Það gæti aukið notkun rafrænna skilríkja. Rósa Braga

Hægt verður að nálgast rafræn skilríki hjá viðskiptabönkum, símafyrirtækjum og hjá Auðkenni innan skamms í kjölfar átaks á vegum fjármámálaráðuneytisins þar sem aðgengi að rafrænum skilríkjum verður virkt. Hugrún Ösp Reynisdóttir, sérfræðingur í upplýsingatæknimálum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir að ganga þurfi í gegnum auðkennisferli til að tryggja öryggið að baki skilríkjunum og svo geti notkun þeirra hafist. 

Auðkennisferlið

Til að fá rafrænt skilríki þarf að fara í gegnum ákveðið ferli til að auðkenna handhafa skilríkisins hjá viðskiptabanka, símafyritæki eða Auðkenni. Fyrst þarf að taka afrit af vegabréfi umsækjanda eða með öðrum hætti staðfesta að um réttan einstakling sé að ræða. Síðan er undirritaður samningur og skilríkið virkt. Við afhendingu skilríkisins er valið pin-númer sem síðan er nýtt í hvert skipti sem rafræna skilríkið er nýtt. Hugrún tekur fram að þeir sem dvelja erlendis og hyggjast sækja um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar þurfi ekki að hafa áhyggjur „það verður leyst með öðrum hætti,“ segir hún en ítrekar þó að allir sem eru þess megnugir þurfi að afla rafræns skilríkis með hefðbundnum hætti.

Þarft ekki nýjan snjallsíma

Rafræna skilríkið er óháð þeim miðli sem hýsir það og því er hægt að fá það bæði á kort og síma. Fram til þessa hafa debetkortin verið ráðandi miðill rafrænna skilríkja. Handhafar kortsins þurfa sérstakan lesara sem tengdur er við tölvu eða innbyggðan kortalesara í tölvu til að nota skilríkið. Einnig verður hægt að fá rafrænt skilríki í farsíma sem verður innbyggt í SIM-kortið og þarfnast ekki sérstaks lesara. „Þetta keyrir á gömlu VIT-tækninni sem er gömul í GSM-símunum og þú þarft því ekki snjallsímann til að nýta þetta,“ segir Hugrún. Auðkenningin fer þá fram með SMS skilaboðum þar sem pin-númerið er nýtt til staðfestingar.

Átak fer brátt af stað

Innan skamms fer í gang átak þar sem einstaklingar geta leitað til viðskiptabanka síns og símafyrirtækis og fengið þar rafræn skilríki. Átakið kemur til af því að ríkisstjórnin býður nú upp á skuldaleiðréttingu og til að samþykkja þá útreikninga þarf rafrænt skilríki. „Farið verður í vinnustaðaheimsóknir á stóra vinnustaði og reynt að gera þetta þægilegt, reyna að stýra þessu þannig að ekki komi allir í einu að leita sér skilríkja,“ segir Hugrún og vonast til að innleiðing rafrænna skilríkja gangi hratt og örugglega fyrir sig þar sem tilvist þeirra auki almennt öryggi í rafrænum viðskiptum á Íslandi. 

100.000 virk rafræn skilríki

Rafræn skilríki nauðsynleg í leiðréttingu

Kortalesari fyrir rafræn skilríki í debetkorti.
Kortalesari fyrir rafræn skilríki í debetkorti. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert