Tuttugu ár frá fyrsta flugi Mjaldursins

Beluga flutningavélar Airbus.
Beluga flutningavélar Airbus. AFP

Tuttugu ár eru á morgun frá því fyrsta flutningavél evrópska flugvélaframleiðandans Airbus tók á loft frá höfuðstöðvum fyrirtækisins í frönsku borginni Toulouse. Frá þeim degi reiddi Airbus sig loksins á eigin hönnun og framleiðslu til að flytja flugvélahluta milli framleiðslustöðva sinna.

Vöruflutningavélin var í fyrstu nefnd Airbus A300-600ST en óvenjuleg lögun vélarinnar og sú staðreynd að hún er æði lík mjaldri (e. beluga whale) varð til þess að í daglegu tali var hún ætíð kölluð Beluga. Nafnið festist og Airbus ákvað að gera það að opinberu heiti vélarinnar.

Mjaldurinn hefur frá jómfrúarfluginu verið vinsæll hjá flugáhugamönnum sem reka oftar en ekki upp stór augu þegar þeir sjá hana taka á loft eða lenda. Þá leiðist þeim ekki að sjá þegar vélin er opnuð en hún er notuð til þess að flytja flugvélahluta allra flugvéla Airbus, nema stærstu hluta í A380 ofurþotuna, og virðist hreinlega gleypa þá. Ekki leiðist þeim því að framleiðsla á A350, nýrri farþegaþotu Airbus, hefst af miklum krafti á næsta ári en sökum þess verður Mjaldurinn mikið á lofti.

Airbus rekur fimm Mjaldra sem leystu af hólmi Ofur gúbbífiskinn (e. Super Guppy) en það voru flutningavél sem byggð var á flugvél sem aðal keppinauturinn, Boeing, framleiddi. Það var því mikið kappsmál hjá Airbus að framleiða eigin flutningavél og losna við þann stimpil að Boeing kæmi að gerð hverrar flugvélar Airbus. Gúbbífiskurinn er þó enn til sýnis við höfuðstöðvar Airbus í Toulouse.

Hér að neðan má sjá flugtak Mjaldursins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert