Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur sótt um einkaleyfi á sérstökum farþegahjálmi sem mögulega mun verða staðalbúnaður í flugvélum framtíðarinnar. Með hjálminum mun vera hægt að hlusta á tónlist, horfa á afþreyingarefni og spila tölvuleiki. Telur fyrirtækið að með hjálminum aukist þægindi farþega til muna.
„Á meðan flugi stendur getur farþegum á stundum leiðst, auk þess sem þekkt er að flugferðir valda hjá sumum kvíða og hræðslu. Til þess að létta farþegum lífið er ýmislegt í boði um borð í flugvélum, til dæmis tónlist, kvikmyndir að tölvuleikur. Auk þess er boðið upp á hressingu. Hins vegar geta þessar lausnir reynst ófullnægjandi. Með þessari uppfinningu er miðað að því að bæta þar úr og auka þægindi farþega í farþegaþotum,“ segir í einkaleyfisumsókn Airbus.
Þar segir einnig að með hjálminum fái farþegar meira næði og gæti því betur notið þeirrar afþreyingar sem í boði er. Einnig kunni meira næði að gera flughræddum farþegum auðveldara með að finna frið og slaka á. „Í öllum tilvikum ætti uppfinningin að bæta upplifun flugfarþega.“