Geimferjan SpaceShipTwo, sem er í eigu fyrirtækisins Virgin Galactic, hrapaði til jarðar nú fyrir stuttu í tilraunaflugi yfir Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu. Tveir flugmenn voru um borð og er annar látinn en hinn alvarlega slasaður.
Hinum slasaða flugmanni var strax flogið á sjúkrahús.
Tilraunaflugið var fyrsta flug ferjunnar í níu mánuði. Talið er að fyrirtækið hafi verið að gera tilraunir með nýja tegund af eldsneyti. Flugmennirnir voru báðir með fallhlífar á sér. Ljósmyndarinn Ken Brown, sem myndaði tilraunaflugið, segir í samtali við AP að hann hafi tekið eftir sprengingu í ferjunni á meðan hún var á lofti. Hann segir enn fremur að brak vélarinnar sé nú í eyðimörkinni.
Virgin Galactic greinir frá atburðinum á Twitter-síðu sinni. Þar segir:
„Samstarfsaðili okkar, fyrirtækið Scaled Composites, notaði geimferjuna SpaceShipTwo í tilraunaflug fyrr í dag. Í tilraunafluginu komu upp bilanir sem leiddu til þess að geimferjan hrapaði. Okkar hugur er fyrst og fremst hjá flugmönnum ferjunnar. Við munum vinna náið með yfirvöldum og aðstandendum til þess að komast að því hvað fór úrskeiðis, sem allra fyrst.“