Hættulegt að bora eftir sýnum

Fyrsta víðsjármyndin sem Philae sendir til jarðar frá yfirborði halastjörnunnar. …
Fyrsta víðsjármyndin sem Philae sendir til jarðar frá yfirborði halastjörnunnar. Myndin er samsett úr sex myndum en eftir á að fullvinna þær. Þær sýna 360° í kringum endanlegan lendingarstað farsins. ESA/Rosetta/Philae/CIVA

Líklegt er að beðið verði með tilraunir til að bora í yfirborð halastjörnunnar 67P/​Churyumov-Gerasimenko eftir sýnum þar til rafhlöður lendingarfarsins Philae nálgast það að klárast. Hættan er sú að farið gæti oltið eða hreinlega flotið af yfirborði halastjörnunnar.

Philae var hönnuð til að ná aðalrannsóknarmarkmiðum sínum á þeim sextíu klukkustundum sem rafhlöður þess áttu að endast. Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA hafa enn ekki fundið fari en það skoppaði tvisvar eftir fyrstu lendingu á halastjörnunni í gær. Svo virðist þó sem það hafi lent á svæði sem þeir höfðu áður hafnað sem mögulegu lendingarsvæði þar sem það væri of skuggsælt og hrjóstrugt.

Jean-Pierre Bibring, yfirvísindamaðurinn við Philae, sagði á blaðamannafundi ESA fyrr í dag að greining lífrænna efnasambanda á halastjörnunni væri forgangsverkefni lendingarfarsins. Til þess þarf að koma sýnum inn í tilraunir geimfarsins. Það er annars vegar hægt með því að bora og hins vegar með því að „þefa“. Hið síðarnefnda er gert með því að opna tilraunina og leyfa sameindum af halastjörnunni að fljóta inn. Philae er þegar að gera það og senda gögn aftur til jarðar.

Borunin er hins vegar vandasamari. Þriðja lögmál Newtons um átak og gagnátak segir að gagnkvæmar verkanir tveggja hluta hvors á annan séu ávallt jafnstórar og í gagnstæða stefnu. Í raunveruleikanum hefur þetta þá þýðingu að ef menn reyna að hreyfa einhver af tækjum Philae gæti það velt farinu eða ýtt því út í geiminn þar sem það er ekki tjóðrað niður eins og til stóð. Með því að bora niður í yfirborðið gæti Philae því lyfst upp og flotið burt.

„Við viljum ekki byrja að bora og enda leiðangurinn,“ sagði Bibring. Þess vegna yrði reynt að gera það ekki fyrr en við lok lífs rafhlaðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert