Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA þurfa að taka erfiðar ákvarðanir um hvort þeir reyna að færa lendingarfarið Philae þannig að það komist í meira sólarljós til að hægt sé að endurhlaða rafhlöður. Það gæti hins vegar teflt leiðangrinum í tvísýnu.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem borist hafa frá Philae til jarðar liggur farið á hliðinni í skugga klettaveggs, hugsanlega við austurhluta gígs á höfði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko. Takist mönnum að færa farið til á sólríkari stað gæti Philae hlaðið rafhlöður sínar sem munu að öðrum kosti tæmast á laugardag og haldið vísindatilraunum áfram. Hætta er hins vegar á að farið velti eða takist á loft af yfirborðinu reyni menn einhverjar snöggar hreyfingar í veikum þyngdarkrafti halastjörnunnar.
Ákveðið var þó að virkja eina tilraunina um borð í kvöld, svonefnda Mupus. Það eru nemar sem mæla þéttleika halastjörnunnar, hitastig yfirborðsins og innviðanna, varmaleiðnina og ýmsa aðra eiginleika yfirborðsins. Það gæti valdið því að Philae hreyfist en vísindamennirnir ákváðu að taka áhættuna þar sem útreikningar sýndu að það myndi færa hana þannig að hún gæti fengið meira sólarljós. Tekin verður önnur víðsjármynd, eins og sú sem birt var í dag, eftir það til að menn sjái hvort að farið hafi færst úr stað.
Móðurfarið Rosetta heldur áfram að leita að Philae á yfirborðinu en enn er óljóst hvar hún endaði eftir að hafa skoppað kílómetra upp af yfirborðinu og kílómetra til hliðar eftir fyrstu lendinguna seinni partinn í gær.
„Þegar við sjáum hvar við erum getum við ákveðið hvað við gerum næst. Við erum í kapphlaupi við tímann. Ekki einblína á klúður, það er gullfallegt þar sem við erum,“ segir Jean-Pierre Bibring, yfirvísindamaður við Philae.