Vísindamenn sem stjórna könnunarfarinu Philae undirbúa nú lokatilraun til að láta farið „stökkva“ á sólríkari stað á yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko. Ef þeim mistekst mun Philae „leggjast í dvala“. Ef engir sólargeislar leika um þar til gerðar rafhlöður á farinu, er ævintýrum þess lokið, að minnsta kosti í bili.
Í fótum könnunar- og lendingarfarsins er innbygður stökkbúnaður, sem vísindamenn geta ræst frá jörðinni. Skipanir þar að lútandi verða gefnar í kvöld, þegar gluggi opnast fyrir samskipti við farið. Það eru engar tryggingar fyrir því að þetta muni virka.
Vísindamenn evrópsku geimferðastofnunarinnar eru að renna út á tíma. Philae hefur legið á hliðinni frá þrefaldri lendingu á miðvikudag og er fast í skugga kletts eða stórgrýtis. Myndir sem farið hefur sent til baka sýna að einn fótur Philae stendur út í loftið, í stað þess að hafa snertingu við jörðina, og því er óvíst að stökkkrafturinn dugi til að koma farinu á réttan kjöl, ef svo má að orði komast.
Philae hefur aðeins fengið um 1,5 klukkustundir af sólarljósi í stað 6-7, sem er sá tími sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar til nú hefur farið staðið, eða legið, hreyfingalaust, þrátt fyrir tilraunir sem hafa verið gerðar með 1,2 metra löngum armi og bor, sem hefðu getað mjakað því til.
Önnur hugmynd sem hefur verið til umræðu er að setja í gang innbyggt kasthjól, sem gæti orðið til þess að Philae tæki hliðarstökk. Þetta kostar hins vegar talsverða orku, sem vafi leikur á að Philae eigi inni.
Vísindamenn gerðu í dag tilraun til að hefja boranir eftir sýnum. Óvíst er hvort þær hafi borið árangur en talið er að Philae hafi þegar skilað um 80% þeirra niðurstaða sem honum var ætlað að skila. Ef borinn skilar sýnum í innbyggð mælitæki farsins, hækkar hlutfallið í 90%.
Guardian fjallar um stöðu mála.