Síðustu andartök Philae í bili

Starfsmenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA í stjórnstöð leiðangursins í Darmstadt í …
Starfsmenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA í stjórnstöð leiðangursins í Darmstadt í Þýskalandi. AFP

Ekki er öruggt að samband náist aftur við lendingarfarið Philae á halastjörnunni
67P/Churyumov-Gerasimenko því rafhlöður þess verða brátt á þrotum. Farið hefur þó aflað um 80% af þeim gögnum sem því var ætlað nú þegar. Þetta kom fram í kynningu vísindamanna evrópsku geimstofnunarinnar ESA nú fyrir stundu.

Samband við Philae rofnaði aftur í morgun en samskipti við hana eru möguleg tvisvar á dag. Haldi rafhlöður hennar út verður hægt að ná sambandi við hana aftur kl. 21 í kvöld. Vegna tafa sem hafa verið að ná stöðugu sambandi þegar samskiptaglugginn opnast er ekki búist við því að gögn fáist fyrr en um miðnætti í kvöld, að sögn Stefans Olamec, stjórnanda Philae.

Búið er að kveikja á bor sem á að afla sýna úr yfirborði halastjörnunnar en ekki er ljóst hvort að hann hafi náð niður til yfirborðsins. Vísindamenn þurfa að bíða fram á kvöld til að fá að vita hvernig tókst til með það.

Holger Sierks, yfirrannsakandi gagna sem koma frá OSIRIS-myndavél móðurfarsins Rosettu, sagðist engar nýjar upplýsingar hafa um staðsetningu Philae á yfirborðinu. Enn sé beðið eftir myndum sem teknar voru þegar Philae sveif niður til þess á miðvikudag. Myndir hefðu átt að nást af því þegar farið fleytti í raun kellingar á yfirborðinu áður en það staðnamst.

Olamec sagði jafnframt að verið væri að skoða möguleikann á að snúa lendingarfarinu til að reyna að auka líkur þess að fá meira sólarljós á sólarrafhlöður sínar. Talið er að farið hafi lent á stað sem er umkringdur grjóti sem skyggir á þær. Nú þegar væri það þó búið að afla um 80-90% þeirra gagna sem því var ætlað.  Valentina Lommatsch frá stjórnstöð lendingarleiðangursins sagði að einnig væri verið að skoða þann möguleika að láta Philae skoppa upp af yfirborðinu til að koma því í betri stöðu en það væri þó afar ólíklegt. Öll tækin um borð hafi hins vegar fengið tækifæri til að afla gagna.

Einnig er ólíklegt að Philae geti safnað orku með sólarrafhlöðum til að ræsa sig síðar. Helst eru vonir bundnar við að ef breytingar verða á afstöðu halastjörnunnar gagnvart sólu eða á yfirborði hennar að þá fái farið meira sólarljós og gæti haldið áfram rannsóknum.

„Við getum bara vonað að þegar við nálgumst sólina í ágúst gætum við komið til baka og talað við lendingarfarið aftur,“ sagði Lommatsch.

Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae í kveðjuskyni.
Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae í kveðjuskyni. ESA/Rosetta/MPS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert