Vatnið kom frá smástirnum

Mynd sem Rosetta-könnunarfarið tók af halstjörnunni 67P/Churyomov-Gerasimenko 20. nóvember.
Mynd sem Rosetta-könnunarfarið tók af halstjörnunni 67P/Churyomov-Gerasimenko 20. nóvember. ESA

Vatnið sem könnunarfarið Rosetta fann á halastjörnunni 67P/Churyomov-Gerasimenko er afar ólíkt vatni á jörðinni. Fyrstu niðurstöður mælinga farsins benda því til að smástirni hafi leikið mikilvægara hlutverk í að flytja vatn til jarðarinnar en halastjörnur í árdaga sólkerfisins.

Þessar niðurstöður koma nokkuð á óvart að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum. Uppruni vatns á jörðinni hefur lengi verið mönnum ráðgáta. Þegar jörðin myndaðist fyrir 4,6 milljörðum árum var hún svo heit að allt vatn gufaði líklega upp og rauk út í geiminn. Nú eru hins vegar tveir þriðju hlutar jarðarinnar þaktir vatni. Menn hafa lengi talið að vatn hafi borist hingað utan úr geiminum með smástirnum og halastjörnum en þeim hefur greint á um hversu stóran þátt hvort fyrirbærið um sig hafi átt í vatnsforða jarðar.

Hægt er að rekja uppruna vatns eftir hlutfalli svonefndra tvívetna í því. Hlutfallið fer eftir því hvar vatnið myndaðist í sólkerfinu. Ekki er þó einfalt að gera slíkar rannsóknir, meðal annars vegna þess hversu fjölbreyttar halastjörnur eru. Eldri mælingar á halastjörnum hafa enda skilað mismunandi niðurstöðum.

Skömmu eftir að Rosetta kom til halastjörnunnar 67P hinn 6. ágúst 2014 gerði ROSINA-litrófsritinn í geimfarinu mælingar á hlutfalli tvívetnis og vetnis í vatnsgufu frá halastjörnunni. Mælingarnar sýndu að hlutfallið er meira en þrisvar sinnum hærra en í vatni á Jörðinni og halastjörnunni 103P/Hartley 2.

Vatn í loftsteinum, sem rekja má til smástirna í smástirnabeltinu, passar mun betur við vatnið á jörðinni. Jafnvel þótt smástirni innihaldi mun minna vatn en halastjörnur, bendir því flest til, niðurstöður Rosetta þar á meðal, að smástirni séu meginuppspretta vatns á Jörðinni.

Frétt um niðurstöður Rosettu á Stjörnufræðivefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert