Hægt að sjá halastjörnuna Lovejoy frá Íslandi

Halastjarnan C/2014 Q2 (Lovejoy).
Halastjarnan C/2014 Q2 (Lovejoy). Damian Peach/Af Stjörnufræðivefnum

Halastjarnan Lovejoy nær mesta birtustigi sínu á himninum um miðjan þennan mánuð og hægt verður að sjá hana nokkuð auðveldlega með berum augum í góðu myrkri á Íslandi. Nái menn ekki að berja hana augum nú er ólíklegt að þeir fái til þess annað tækifæri því hún snýr ekki aftur fyrr en eftir 8.000 ár.

Lovejoy, eða C/2014 Q2, er langferðarhalastjarna með um það bil 11.500 ára umferðartíma. Þetta er því ekki fyrsta ferðalag hennar inn í innra sólkerfið. Að þessu sinni mun þyngdartog reikistjarnanna hins vegar breyta braut hennar nokkuð, svo að næst snýr hún aftur eftir um 8.000 ár, að því er kemur fram í grein á Stjörnufræðivefnum.

Hagi halastjarnan sér eins og spár gera ráð fyrir nær hún mest birtustigi 4,1 um miðjan janúarmánuð. Það þýðir að hún sést nokkuð auðveldlega með berum augum í góðu myrkri. Halastjarnan gengur þá inn í stjörnumerkin Nautið og Hrútinn og liggur þá mjög vel við athugun frá okkur á kvöldhimninum um það leyti því ekkert tungl er á lofti til að trufla. Hinn 17. janúar verður halastjarnan um átta gráður vestsuðvestur af Sjöstirninu.

Halastjarnan verður í sólnánd hinn 30. janúar, þá í ríflega 193 milljón km fjarlægð frá sólu. Um það leyti ætti hún að byrja að dofna jafnt og þétt frá jörðu séð. Seint í janúar birtist tunglið líka á ný á himninum en það er hálft hinn 26. og dregur þá úr sýnileika halastjörnunnar.

Í febrúar mun halastjarnan hafa dofnað nokkuð en þá verður hún milli stjörnumerkjanna Andrómedu og Perseifs.

Gott að nota handsjónauka

Þótt halastjarnan sjáist með berum augum er enn betra að skoða hana með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Handsjónauki hentar fullkomlega til að sjá grænleitan hadd eða hjúp halastjörnunnar og hugsanlega bláleitan gashala frá henni.

Græni liturinn stafar af kolefnissameind (C2) sem glóir vegna örvunar frá útfjólubláu ljósi frá sólinni. Kolefnis- og nitursameindin cyanogen (CN) bætir daufum fjólubláum bjarma við græna litinn en augu okkar greina hann varla.

Mjói jónahali halastjörnunnar (gashalinn) er hins vegar bláleitur. Liturinn stafar af flúrljómuðum kolmónoxíðjónum (CO+) sem losna frá halastjörnunni. Áhugavert er að skoða þennan hala í sjónauka því í honum geta leynst mögnuð smáatriði.

Ryk í höfði halastjörnunnar og halanum endurvarpa einfaldlega sólarljósinu, svo ís- og rykhalinn sem halastjörnur eru frægastar fyrir er jafnan fölgulur eða gulhvítur eins og sólin. Margar halastjörnur skarta löngum og fögrum íshölum en til þessa hefur halastjarnan Lovejoy ekki skartað áberandi íshala.

Grein um halastjörnuna Lovejoy á Stjörnufræðivefnum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka