Fyrsta myndin af Lovejoy

Mynd sem Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, tók af halastjörnunni …
Mynd sem Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, tók af halastjörnunni Lovejoy í gærkvöldi. Jón Sigurðsson

Halastjarnan Lovejoy sést frá Íslandi þessa dagana en á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins hefur verið birt fyrsta myndin sem tekin hefur verið af henni héðan. Heiðurinn af henni á stjörnuáhugamaðurinn Jón Sigurðsson á Þingeyri. Halastjarnan er vel sýnileg á himninum og áberandi í gegnum handsjónauka.

Myndina tók Jón í gegnum sjónauka á rafstýrðu stæði sem fylgir snúningi jarðarinnar í gærkvöldi. Halastjarnan á að ná mesta birtustigi sínu um miðjan þennan mánuð og á að vera hægt að sjá hana nokkuð auðveldlega berum augum í góðu myrkri hér á landi.

Nú er jafnframt síðasta tækifærið í bili til að berja halastjörnuna augum því hún á ekki leið fram hjá jörðinni aftur fyrr en eftir um 8.000 ár.

Fyrri frétt mbl.is: Hægt að sjá halastjörnuna Lovejoy frá Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert